152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi, til að klára fyrra andsvar hvað varðar fjarskiptamálin, þá finnst mér að tæknibreytingarnar sem urðu seint á síðustu öld, grundvallarbreytingar í fjarskiptum, hafi þýtt að það hafi ekki verið raunhæft fyrir ríkið að eiga allt fjarskiptakerfið. Tæknibreytingarnar hafi með öðrum orðum kallað á það að hleypa ætti samkeppninni að. Þó hefði mátt og hefði átt að skoða það betur að halda eftir ákveðnum grunninnviðum í jörðu til að mynda, sem var ekki gert, eins og hv. þingmaður nefndi. Fyrir vikið þurfum við að nálgast þetta núna með því að leggja þeim fyrirtækjum sem hafa aðgang að þessu kerfi ákveðnar skyldur á herðar gagnvart samfélaginu.

Hvað varðar frumvarpið í heild verð ég að viðurkenna, eins og fleiri hv. þingmenn hafa gert, að ég hef ekki náð að lesa alla bókina en ég hef skoðað alla helstu kafla og minnist reyndar umræðu um þetta mál á fyrri stigum og fylgdist aðeins með vinnunni í umhverfis- og samgöngunefnd á sínum tíma. Margt í þessu frumvarpi er til bóta og vinna umhverfis- og samgöngunefndar á síðasta kjörtímabili var mjög til þess fallin að bæta þetta mál enda mjög mikil og góð vinna ólíkra flokka eða fulltrúa ólíkra flokka sem fór í þetta þá. Það sem ég myndi kannski helst setja út á varðandi málið er, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að það er svolítið á eftir tímanum. Við erum enn að elta þróunina í stað þess að gera a.m.k. tilraun til að sjá fyrir eða undirbúa það sem er í vændum.