152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[20:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og í rauninni hreinskilnina því að þetta er auðvitað mjög flókið mál tæknilega og bara hreint ekki auðvelt að reyna að skilja það svo vel sé, nema maður liggi vel yfir þessu löngum stundum. Eins og hv. þingmaður fór yfir þá er gott merki um hversu flókið og tæknilegt það er að það þurfi 62 orðskýringar um hitt og þetta, að það sé orðskýring í lögunum yfir það hvað er þráðlaust net og svæðisbundið númer og þess háttar.

En það var ekki það sem ég ætlaði að segja heldur hvort hv. þingmaður sé sammála mér um það hversu mikilvægt það er að við séum hluti af stærra regluverki þegar kemur að neytendaöryggi og neytendavernd og öryggi fyrir allan almenning í viðamiklum og mikilvægum málum eins og fjarskipti eru — hér er í rauninni verið að styðjast við samevrópskt regluverk um lágmarksþjónustu, um lágmarkstryggingu almennings fyrir því að geta fengið netþjónustu, fjarskiptaþjónustu, og að það sé ákveðið öryggi í þessu kerfi — hvort hv. þingmaður geti verið sammála því að það sé mikilvægt að við séum í einhvers konar samfloti með öðrum þjóðum þegar um er að ræða þjónustu af þessu tagi.