152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[21:16]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á rétt neytenda. Viðskipti við fjarskiptafyrirtæki er gríðarlegur frumskógur fyrir neytendur. Ég var að lesa umsögn Neytendastofu sem þau komu með síðast þegar frumvarpið var lagt fram. Þar er gerð athugasemd við að það sé óljóst hvað átt sé við með „viðráðanlegu verði“ eða út frá hverju það sé ákvarðað og lagt til að settar verði fram skýringar eða viðmið fyrir neytendur og aðila markaðarins til að átta sig á hvernig viðráðanlegt verð kunni að vera fundið út. Svo segir:

„Hins vegar vill Neytendastofa benda á að í 4. mgr. 62. gr. er um það fjallað að ágreining um synjun þjónustu verði borinn undir Póst- og fjarskiptastofnunar til ákvörðunar en að öðru leyti er hvergi í frumvarpinu gerð grein fyrir því hvert neytendur geti leitað með einkaréttarlegan ágreining vegna fjarskipta. Ganga má út frá því að neytendur geti lagt ágreininginn fyrir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa en benda má á að Neytendastofa hefur talað fyrir því að komið verði á fót sérstakri kæru- eða úrskurðarnefnd sem tekur á ágreiningsmálum sem varða fjarskipti.“

Mig langar að beina því til þingmannsins hvort hann telji að nógu vel sé hugað að réttindum neytenda í þessu frumvarpi og hvort hann taki undir með Neytendastofu um að það verði komið á fót sérstakri kæru- eða úrskurðarnefnd sem taki á ágreiningsmálum.