152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir yfirferð hans. Mig langar að ræða þann þátt þessa frumvarps er lýtur að samkeppni og í rauninni þeirri neytendavernd sem er verið að innleiða í íslensk fjarskiptalög í nokkrum ákvæðum. Kannski man hv. þingmaður eftir þeirri umræðu sem átti sér stað hérna þegar verið var að samþykkja svokallað Mílufrumvarp sem var svona lítill stubbur, það var verið að nýta lítinn bút úr frumvarpi til heildarlaga um fjarskipti sem var lagt fram á síðasta og þarsíðasta þingi. Það fjallaði um hitt og þetta, en þar var minni hlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd að reyna að koma inn ákvæði til þess einmitt að tryggja neytendur og tryggja samkeppni og að Fjarskiptastofnun gæti í rauninni gripið inn í þegar aðilar á fjarskiptamarkaði með mjög markaðsráðandi stöðu tryggja ekki stöðu neytenda. Ég spyr hvort hv. þingmaður geti verið sammála mér um það að margs konar regluverk sem kemur frá Evrópu sé að auðga mjög íslenska löggjöf þegar kemur að neytendum og neytendavernd.