152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

umhverfi fjölmiðla.

[16:22]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Frá því að stofnað var til núverandi ríkisstjórnarsamstarfs árið 2017 hefur starfsfólki fjölmiðla fækkað um helming. Fleiri hundruð fjölmiðlamenn hafa gefist upp á lágum launum og miklu álagi. Margir þeirra hafa flúið í hlýjan faðm hins opinbera sem hefur komið sér upp heilum her upplýsingafulltrúa sem margir hverjir líta á það sem sitt eina hlutverk að fegra störf stjórnvalda og skammta fjölmiðlum upplýsingar. Þetta er varhugaverð þróun, forseti. Í heilbrigðu samfélagi væri hún öfug. Starfsfólki fjölmiðla myndi fjölga á sama tíma og stjórnvöld myndu hætta að verja sífellt meira skattfé í að spinna um sig fréttir og jákvæða umfjöllun. Þetta hefur ekki verið raunin í valdatíð þessarar ríkisstjórnar, þvert á móti.

Hér í þessum sal hefur verið rætt árum saman um rekstrarumhverfi fjölmiðla. Nefndir hafa verið skipaðar, skýrslum hefur verið skilað en litlu áorkað. Á sama tíma hefur ekki aðeins rekstrarumhverfi versnað heldur hefur verið grafið undan starfsskilyrðum og öryggi blaðamanna. Má þar nefna lögbann á umfjöllun Stundarinnar um viðskipti þáverandi forsætisráðherra, sem er nú hæstv. fjármálaráðherra, við forvera Íslandsbanka sem sami ráðherra selur þessa dagana. Umfjöllun Stundarinnar sýndi svo ekki verður um villst, með leyfi forseta, „að fjármálaráðherra var ekki leiksoppur í viðskiptum, heldur leiddi hann viðskipti Engeyjarættarinnar, þvert á það sem hann hefur áður sagt fyrir dómi“. Þessi umfjöllun átti tvímælalaust erindi við almenning en fulltrúum framkvæmdarvaldsins var misboðið. Ef stjórnvöldum er raunverulega annt um starfsumhverfi fjölmiðla, eins og heyra mátti af ræðu hæstv. ráðherra í þessari umræðu, ættum við að gera þá lágmarkskröfu að fjölmiðlafólk geti um frjálst höfuð strokið, ekki aðeins þegar kemur að lögbönnum, ofsóknum skæruliðadeilda og skýrslutökum, heldur að stjórnvöld snúi við þeirri þróun sem hefur orðið á vakt núverandi ríkisstjórnar. Upplýsingagjöf til almennings á nefnilega vera á forsendum almennings, ekki almannatengla. Þar leika fjölmiðlar lykilhlutverk.