Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

velferð barna og biðlistar.

[15:27]
Horfa

Helga Þórðardóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Ég heyri það að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra vill gera vel og ég hef fulla trú á því að hann hafi góðan vilja til þess að koma þessum farsældarlögum í framkvæmd. Mig langaði kannski bara að segja ykkur frá því, af því ég er nú kennari og þurfti að koma við í Austurbæjarskóla í morgun, að ég stoppaði á kennarastofunni og spurði nokkra kennara um hverju væri brýnast að bregðast við núna. Allir kennararnir töluðu um að það vantaði meiri stoðþjónustu. Þeir töluðu líka um að íslenskukennsla barna af erlendum uppruna væri í algerum lamasessi og að langur biðlisti væri í íslenskuverin. Ég hjó eftir því að lagður hefði verið 1,1 milljarður til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í tengslum við farsældarlöggjöfina. (Forseti hringir.) Reykjavíkurborg getur ekki fengið neina fjármuni úr jöfnunarsjóðnum. Mín spurning er því þessi: Er gert ráð fyrir sérstökum fjárstuðningi til Reykjavíkurborgar?