Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

462. mál
[17:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2021. Ákvörðunin fellir inn í EES-samninginn tiltekna reglugerð sem er hluti af aðgerðaáætlun ESB um að koma á fót innri fjármagnsmarkaði.

Markmiðið með reglugerðinni er að liðka fyrir útgáfu og skráningu fjármálagerninga á svokallaðan vaxtarmarkað. Tilgangur vaxtarmarkaða er að gera það meira aðlaðandi og aðgengilegra fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að nota fjármálamarkaði til að sækja sér fjármagn. Hér er verið að bæta við fjármögnunarkostum en fjármögnun þessara fyrirtækja er að miklu leyti háð lánveitingum frá lánastofnunum í dag.

Reglugerðinni er ætlað að draga úr kostnaði og formkröfum til vaxtarmarkaða en um leið gæta að heilleika markaðarins og fjárfestavernd. Tilgangurinn er einnig að gera skráð félög á vaxtarmörkuðum seljanlegri og gera með því slíka markaði meira aðlaðandi, m.a. fyrir fjárfesta og útgefendur fjármálagerninga. Auk þess er reglugerðinni ætlað að stuðla að skráningu markaðstorga fjármálagerninga sem vaxtarmarkaða og auka viðskipti á slíkum mörkuðum á hverju markaðssvæði og yfir landamæri.

Vonir standa til að innleiðing reglugerðarinnar leiði til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki hér á landi hljóti hagstæðari fjármögnun en nú er. Í september 2021 var tilkynnt að Nasdaq First North markaðurinn hér á landi hefði hlotið skráningu sem vaxtarmarkaður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í samræmi við 58. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.

Virðulegi forseti. Ákvörðunin kallar á lagabreytingar hér á landi og stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp til innleiðingar á yfirstandandi löggjafarþingi.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þegar umræðu þessari lýkur verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.