Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég er aðeins að velta fyrir mér einu máli sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir býsna vel, a.m.k. frá sínu fyrra ráðuneyti, og það er sauðféð, beit sauðfjár, og áhrif þess á — hvernig skulum við orða þetta? Réttmæti þess að talað sé um lífræna arð. Hér er verið að tala um frumvarp sem hefur áhrif á rekstraraðila í lífrænni framleiðslu. Ég hegg eftir því að í umsögn Bændasamtakanna kemur fram að þau styðji vissulega markmið frumvarpsins, og ég veit að þau gera það heils hugar, en þau tala um skort á samráði og kynningu á áhrifum frumvarpsins gagnvart bændum, að ljóst sé að það verði áhrif á rekstraraðila í lífrænni framleiðslu o.s.frv.

Mig langar til að rifja upp þingmannamál mitt frá því árið 2020, um endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt. Ég veit að þetta er ævintýralega vont heiti en það snerist í stuttu máli um að við værum ekki að styrkja, út frá umhverfissjónarmiðum, sauðfjárframleiðslu þar sem óljóst væri hvort verið væri að beita sauðfé á nægilega gott land. Með öðrum orðum væri það annars vegar sá möguleiki að við værum að ýta undir vonda meðferð á landi með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum og hins vegar að ýta undir það, af því að nú er þetta ekki sérmerkt framleiðsla, að neytendur, sem vilja sannarlega vera umhverfisvænir, kaupa lífræna framleiðslu, geti ekki verið vissir um að svo sé.

Mig langar því til að spyrja ráðherra: Er þetta mál til þess fallið að koma skikki á þetta atriði? Vegna þess að í reglugerðinni sem ég las hérna á hundavaði, reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu, og í 21. gr. er talað um umhverfi sauðfjár og talað um búfjárrækt sérstaklega, er verið að tala um að skilyrðið sé aðgengi að nægu beitarlandi á sumrin. Felur þetta ágæta mál (Forseti hringir.) í sér að tekið verði á þessum stóra ágalla sem við þekkjum svo vel?