Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, akkúrat, við erum komin á gamalkunnar slóðir að ræða þetta mál en ég fagna því vegna þess að ég veit að hæstv. ráðherra býr yfir mikilli þekkingu á þessum málaflokki og vilja til að koma að þessu á rétt form. Ég myndi ætla, og ráðherra fór svo sem vel yfir það, að þetta mál, hvort sem það er skrifað beinlínis inn í það eins og það er núna eða hvort það verður eftir að hafa breyst í meðförum atvinnuveganefndar, muni taka tillit til þessa. Það stendur beinlínis í 4. gr., með leyfi forseta:

„Óheimilt er að nota hvers kyns orð, orðmyndir, hugtök, myndir eða tákn sem vísa til lífrænnar framleiðslu á merkingum umbúða, í auglýsingaefni eða viðskiptaskjölum nema framleiðslan uppfylli skilyrði í reglugerð um lífræna framleiðslu …“

Reglugerðin vísar síðan til þess að þarna eigi að vera aðgengi að góðu beitarlandi og það er óumdeilt að það er ekki alltaf gott beitarland sem sauðfénu er beitt á þrátt fyrir að styrkveitingar séu til staðar og tengdar við lífræna framleiðslu. Þetta er eiginlega hringavitleysa, öll þessi styrkveitingamál okkar, og því miður hefur ekki tekist nægilega vel að ná tökum á þessu. Ég ætla mér síðan að halda áfram að hnykkja á því hversu eiginlega ótækt það er að bjóða neytendum upp á það að geta ekki fengið fullvissu fyrir því hvers lags afurð þeir eru að kaupa og hversu ótækt það er að bjóða bændum, framleiðendum, upp á það að fari þeir í einu og öllu eftir því sem fram kemur í reglugerð og uppfylli öll þessi skilyrði geti þeir ekki treyst því að þeir beri þá úr býtum og fái að njóta uppskerunnar.

Mér finnst þetta gríðarlega mikilvægt og mér finnst svolítið sérkennilegt að sjá annars vegar ráðuneytið tala meira eða minna um það að þetta mál snúist fyrst og fremst um (Forseti hringir.) eftirlit og annað slíkt og Bændasamtökin tala síðan um að það geri það ekki heldur snúist um það sem lýtur að framleiðslunni. (Forseti hringir.) Ég er í sjálfu sér ekki með neina aðra spurningu en ég óska eftir fulltingi hæstv. ráðherra við að málið taki til þessara atriða í vinnslu.