Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:12]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vera stuttorður. Mig langaði bara að taka undir að það er gott að með þessum lögum sé verið að setja skýrari reglur um hvað skilgreinist sem lífræn framleiðsla. Það er mikilvægt fyrir neytendur að það sé ekki bara hægt að segja: Þetta er lífrænt ræktað, þetta er lífræn framleiðsla, heldur sé eitthvað sem standi þar á bak við. Að auki er mikilvægt skref stigið með því að innleiða reglugerð Evrópusambandsins sem við fórum með í gegnum þingið fyrir áramót, reglugerð (ESB) 2018/848 fyrir þá sem hafa gaman af að fletta því upp. Hluti af því gengur út á að það sem er vottað hér sem lífrænt virkar líka í Evrópu og öfugt. Það er mikilvægt að það sé gert mögulegt. Í umsögnunum eru einhverjar athugasemdir um að ekki hafi verið nægilegt samráðsferli við gerð þessa frumvarps en það er bara eitthvað sem við tökum til skoðunar í atvinnuveganefnd og reynum að fá svör frá þeim aðilum um hvað megi betur fara. Og eins þau okkar sem hittu fulltrúa á Búnaðarþingi í síðustu viku, við fengum að heyra þar um frábært frumkvöðlastarf á Neðri-Hálsi í Kjós, í Biobú, en þau hafa í tæp 25 ár verið að þróa það að búa til lífrænar vörur. Það var gaman að tala við þau um hversu erfitt það ferli var í rauninni að byrja með það löngu áður en nokkrir aðrir hér á landi voru byrjaðir að hugsa um lífrænt.

Þannig að það er um að gera að við setjum góðar og gildar reglur í kringum þetta. Ég treysti því að við í atvinnuveganefnd tökum tillit til þeirra athugasemda sem koma og skoðum hvað megi gera til að auðvelda og gera þetta betra.