Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:22]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að bregðast við orðum hv. þm. Arnars Þórs Jónssonar. Ég tel mig ekki vera að tala niður löggjafann eða hið háa Alþingi með því að benda á þá góðu reynslu sem við höfum af EES-samstarfinu. Það er auðvitað alveg rétt, eins og þingmaðurinn bendir á, að í, kannski ekki beinlínis aldanna rás en alla vega á síðustu öld höfum við átt í nánu samstarfi við mörg lönd og íslensk löggjöf byggir að mörgu leyti á sama módeli og löggjöf nágrannalanda okkar. En þegar kemur að málaflokkum eins og neytendavernd og umhverfismálum, reyndar vinnumarkaðsmálum líka, sem er málaflokkar sem ég þekki alveg sæmilega til, þá eru bara of mörg dæmi um það síðustu áratugi að við höfum í rauninni fengið þaðan umbætur og réttarbætur sem ég hef ekki orðið vör við að talað hafi verið sérstaklega fyrir eða hafi verið lögð sérstök áhersla á hér með öðrum hætti. Auðvitað er það ekki þannig að allt sé gott sem kemur frá Brussel. Það er ekki þannig. En þetta samstarf hefur fært okkur bæði hagsæld og velsæld og líka umbætur sem ég tel mjög mikilsverðar. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé ekkert sérstaklega ákjósanlegt að vera í farþegasætinu í þessu samstarfi. Þess vegna vil ég sem jafnaðarmaður að við setjumst við borðið og tökum þátt í ákvarðanatökunni. En þar erum við hv. þingmaður væntanlega ósammála.