152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[14:30]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að koma hingað upp og segja að þeir stjórnarþingmenn sem hafa tjáð sig um þetta mál og ráðherrar sumir hverjir hafa gert það að mínu mati með ágætlega réttum hætti. En mig langar samt aðeins að nefna það að þegar ráðherrar eru spurðir fyrir utan ráðherrabústaðinn eða Stjórnarráðið hvort þeir treysti öðrum ráðherra þá er svarið undantekningarlaust: Já. Já, ég treysti honum. (Gripið fram í.) En það voru tveir ráðherrar sem sögðu eftir fundinn í dag, tveir, að þeir treystu sér ekki til þess að fara með þá fullyrðingu:

„Það er alfarið mál þess sem í hlut á hverju sinni að leggja mat á það og ég ætla ekki að leggja neitt á mig til að hjálpa til við það.“

— Ég ætla ekki að leggja neitt á mig til að hjálpa til við það. Hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra vildi ekkert láta hafa eftir sér hvort hún teldi að Sigurður gæti setið áfram sem ráðherra vegna málsins. Eftir hvaða annan ríkisstjórnarfund hefðu þessi orðaskipti farið svona? Ekki neinn, ekki neinn annan, a.m.k. ekki núna nýlega. (Forseti hringir.) Við verðum auðvitað að skoða þessi ummæli í því ljósi. Ég get vel skilið að þetta sé erfitt mál innan ríkisstjórnarflokkanna (Forseti hringir.) og ég get vel skilið að hæstv. fjármálaráðherra svari því þannig að hann hafi hingað til átt gott samstarf við Sigurð (Forseti hringir.) og ég dreg það ekki eina einustu mínútu í efa. En þessi ummæli sem við erum að ræða og eru hérna alltumlykjandi (Forseti hringir.) verða að komast á dagskrá þingsins. Þessi beiðni stjórnarandstöðunnar er sanngjörn og eðlileg og mér finnst að forseta ætti að vera skylt að verða við henni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)