152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum ekki hér að afgreiða tekjubandorm næsta árs eða næstu ára. Við erum heldur ekki að taka upp nýtt almannatryggingakerfi. Við erum hérna með áætlun um helstu forsendur tekju og gjalda ríkissjóðs á áætlunartímabilinu. Það sem er undirliggjandi í þessu eru tölur Hagstofunnar, m.a. um verðbólguþróun. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það setur þrýsting á okkur í ljósi þess hvernig almannatryggingalögin eru smíðuð þegar það koma verðbólgutímar, en við vonumst auðvitað til þess og erum að reyna að leggja upp með áætlun sem styður við það að við náum tökum á verðbólgunni í þeim tilgangi einmitt að verja kjör þeirra sem hér eiga undir.

Annars er erfitt að keppa við hv. þingmann í því að vilja gera vel við öryrkja eða aldraða vegna þess að hann hefur margoft talað hér fyrir aðgerðum sem kosta nýja 100 og 200 milljarða eða a.m.k. einhvers staðar þar á milli, á ári. Við erum þegar að setja rúmlega 10% af öllum tekjum ríkissjóðs í málefni aldraðra. Við gerum það. Málefni öryrkja fylgja þar fast á eftir. Þannig að ef skoðuð er sú saga sem hefur teiknað sig upp í tíð þessarar ríkisstjórnar og þeirra ríkisstjórna sem ég hef setið í þá er það eitt sem einkennir hana: Það er vaxandi kaupmáttur bóta. Það þýðir með öðrum orðum að bætur duga betur til að komast af. En nei, þá er gripið til þessa hugtaks sem hv. þingmaður notaði, sem er kjaragliðnun, og við erum skyndilega komin út í allt aðra umræðu um að þessi hefðbundnu viðmið okkar sem bæði eru lögfest og við höfum talað fyrir hér, að tryggja vaxandi kaupmátt í samræmi við getu ríkissjóðs hverju sinni, eru hætt að skipta máli. Menn vilja fara að tengja sig við einhver ný viðmið. Auðvitað kemur kjaragliðnunarumræðan upp nú þegar okkur hefur tekist að stórhækka laun þeirra sem eru lægst í tekjustiganum.