152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin sem voru ekki mjög upplýsandi vegna þess að hann segist hafa stóraukið fé til eldri borgara, sem er alveg kolrangt. Það er jafn rangt og þessi fjármálaáætlun, vegna þess að þetta er einhver bjartsýnisáætlun sem á greinilega ekki að standast. Ef við erum að búa til 500 blaðsíðna doðrant hlýtur að vera alveg lágmarkið að þetta sé svona nokkurn veginn rétt. En á sama tíma stendur í þessum doðranti að það eigi að setja 430 milljónir í endurhæfingarkerfi öryrkja. Á sama tíma erum við að setja á þriðja milljarð í að breyta ráðuneytum, á þriðja milljarð. Það er verið að setja minna í endurhæfingu öryrkja heldur en í svokallaða fjölmiðlastyrki, að styrkja frjálsa fjölmiðla. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig sér hann fyrir sér að þessar 430 millj. kr. muni duga til að taka á því vandamáli?