152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:21]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér liggja spilin fyrir framan okkur. Þetta er planið út kjörtímabilið. Þetta er ríkisstjórn hins kerfislæga vaxtar, ríkisstjórn sem uppfærir skjöl án pólitískrar stefnumótunar, ríkisstjórn sem hefur útvistað stórpólitískum ákvörðunum til embættismanna sem framreikna málaflokka. Kerfislægur vöxtur skýrir nær allar breytingar í þessari fjármálaáætlun. Þau treysta sér ekki einu sinni til að útfæra aðhaldsaðgerðir á tímabilinu. Við stöndum frammi fyrir stórum verkefnum, breyttri heimsmynd; eftirköst heimsfaraldurs, mesta verðbólga í 12 ár, brotinn húsnæðismarkaður, stríð í Evrópu og hingað mætir hæstv. ríkisstjórn með fjármálaáætlun sem felur í sér framreikning. Búa þau í öðrum veruleika en við hin?

Í fjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar kemur fram að stærsti útgjaldaliðurinn á tímabilinu sé til félags- og tryggingamála, 26 milljarðar kr. Þessir 26 milljarðar kr. er allt kerfislægur vöxtur. Hér eru teknar forsendur um öldrun þjóðar og fjölgun öryrkja á tímabilinu og skjalið uppfært. Þetta eru ekki 26 milljarðar kr. í bætta þjónustu eða betri kjör þessara hópa. Þetta eru 26 milljarðar kr. sem bætast við útgjöld ríkissjóðs til að standa undir núgildandi lögum um almannatryggingar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar kom fram, með leyfi forseta: „Afkoma ellilífeyrisþega verður áfram bætt og sérstaklega litið til þeirra sem lakast standa.“ Enn fremur að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu og sérstaklega horft til þess að bæta afkomu. Nei, ekkert slíkt verður gert. Það eru engar fjárheimildir fyrir slíku hérna. Og hvað með stórsóknina í heilbrigðismálum? Sjúkrahúsþjónusta, jú, þar heldur framreikningurinn áfram. Nánar tiltekið vitum við að reiknaður raunvöxtur, sem er ekkert annað en flókið orðasamband yfir álag á spítalann vegna öldrunar þjóðar og fjölgunar, er 1,8% í líkönum fjármálaráðuneytisins. Það er reyndar úrelt viðmið, en gott og vel. Og hvað birtist okkur í þessari fjármálaáætlun? Einmitt 1,8% vöxtur útgjalda í liðnum um sjúkrahúsþjónustu. Sömu sögu er að segja um reksturinn þegar kemur að hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, 1,8%, þar er skellt í raunvöxtinn. Er skemmst frá því að segja að í síðustu fjárlögum var fjármagnið sem fékkst út af þessum reiknaða raunvexti fyrir heilbrigðiskerfið allt notað til að mæta kostnaði vegna betri vaktavinnutíma. Ekki verður betur séð en að það sé planið aftur núna. Hvað þýðir þetta? Jú, það var sem sagt ráðist í aðgerðir til að draga úr álagi á fólki í heilbrigðiskerfinu með því að fækka vinnustundum nema nú á að borga fyrir þessar færri vinnustundir með fjármagni sem annars myndi nýtast til að mæta aukinni hjúkrunarþyngd, sem sagt auknu álagi. Álagið er einhvern veginn fært úr einum vasanum í hinn. Þetta er klassískt dæmi um stjórnmál þessarar ríkisstjórnar. Þau eru að færa saltstaukana til og skilja svo ekki af hverju vandamálin vinda svo upp á sig. Hverjum datt í hug að hægt væri að innleiða betri vaktavinnutíma án kostnaðar? Það mun auka virkni, draga úr örorku og kulnun, auka vilja fólks til að gefa kost á sér í þessa vinnu en þetta mun taka áratug. Það verður að vera pólitískur vilji til að ráðast í breytingar sem kosta til að byrja með.

Nú var að koma út skýrsla á vegum ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey þar sem kemur fram að nýi Landspítalinn væri nú þegar sprunginn hvað varðar legurými ef ekki yrði fjárfest í úrræðum fyrir langtímaumönnun. Fram kemur í skýrslunni að bæta þurfi við 240 úrræðum fyrir langtímaumönnunarsjúklinga, svo sem í heimaþjónustu, hjúkrunarrými og endurhæfingu, svo spítalinn springi ekki. Sparnaðurinn við að ráðast í slíkar aðgerðir, sparnaður sem birtist ekki strax en með tíð og tíma, yrði heilt yfir fyrir heilbrigðiskerfið 1–2 milljarðar, en 9 milljarðar á Landspítalann. Það er ekkert um þetta í þessari fjármálaáætlun. Raunar er það svo að eftir 2023 er nær engin fjármögnun fyrir ný hjúkrunarrými, óháð því sem hæstv. fjármálaráðherra hélt fram áðan þó að til sé einhver uppsöfnuð fjárheimild sem gekk ekki út. Það þýðir bara að það er enn þá meira af hjúkrunarrýmum sem á eftir að byggja. Hvað er eiginlega í gangi? Við erum til að mynda nýbúin að hlusta á hæstv. heilbrigðisráðherra tala fyrir heilbrigðisstefnu til 2030 fyrir aldraða. Það er nákvæmlega ekkert aukafjármagn sem þessu fylgir.

Virðulegi forseti. Mig langar til að vitna til þess sem hæstv. innviðaráðherra sagði í síðasta mánuði í sérstakri umræðu í þinginu um húsnæðismál, með leyfi:

„Sá ráðherra er hér stendur leggur mikla áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis um allt land og hefur lagt inn tillögur í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 um verulega aukningu fjármuna til að fjölga uppbyggingu íbúða fyrir tilstuðlan opinbers húsnæðisstuðnings …“

Og áfram heldur hæstv. ráðherra: „Og já, við erum með framtíðarsýn. Við erum með plan og það skýrist.“ Gott og vel. Það plan hefur skýrst. Það plan heitir fjármálaáætlun. Kíkjum aðeins á hana. Fjármagn í húsnæðismál dregst saman á tímabilinu. Í áætluninni má finna viðbótar 0,5 milljarða kr., 500 millj. kr., til að mæta fjölgun leigjenda á tímabilinu. Það er ekki aukinn stuðningur við hópinn heldur einmitt kerfislægur vöxtur en að öðru leyti dregst húsnæðisstuðningurinn saman. Stofnframlög til að byggja almennar íbúðir dragast saman um 2 milljarða kr. Ég er alveg farin að gefast upp á hæstv. ráðherrum hér. Er í alvöru í lagi að segja bara eitthvað? Hvað varð um tillögur hæstv. innviðaráðherra? Hæstv. fjármálaráðherra tekur hér fram að þetta sé ekki tímabært. Voru tillögurnar sem sagt bara settar til hliðar í fjármálaráðuneytinu rétt eins og tillögur um fjölgun hjúkrunarrýma voru ekki fjármagnaðar? Hér er síðan vitnað til Reykjavíkurborgar. Ég get bara fullyrt hér að Reykjavíkurborg telur tímabært að bregðast við þessu ástandi með tvöföldun á þeim lóðum sem eiga að vera í framboði. Kannski ætti hæstv. fjármálaráðherra að athuga með sína flokka í Kraganum, hvernig gengur að mæta þessari eftirspurn þar.

Svo er það uppbyggingin. Innviðastjórnin hét þetta nú einu sinni og hver varð niðurstaða þeirrar innviðastjórnar? Jú, eitt ár, það tókst að koma opinberri fjárfestingu almennilega af stað og það var fyrir tilstuðlan heimsfaraldurs. Árið 2021 var fjárfesting ríkisins loksins komin upp í sögulegt meðaltal fyrir 2011 en á þessu kjörtímabili fer hún aftur minnkandi. Ekki mun takast að vinna upp innviðaskuld áranna 2013–2017. Niðurskurður bakdyramegin í gegnum sveitarfélögin hefur gert það að verkum að fjárfestingarstigið víða á sveitarstjórnarstiginu er með öllu óásættanlegt. Verkefni hafa verið færð á undanförnum árum yfir til sveitarfélaganna án þess að nægjanlegt fjármagn hafi fylgt með og í staðinn þurfa sveitarfélögin að halda aftur af nauðsynlegri fjárfestingu. Hvergi í þessari fjármálaáætlun má sjá merki um að þessi staða verði löguð.

Virðulegi forseti. Hvert fór andvirði Íslandsbanka í þessari fjármálaáætlun? Gífurlegur kostnaður varð af bankahruninu sem leiddi af sér uppsafnaða innviðaskuld úti um allt land. Heilbrigðiskerfið er enn laskað eftir niðurskurð. Almenningur eignaðist bankana sem skaðabætur fyrir bankahrunið. Almenningur er búinn að bíða eftir uppbyggingunni. Andvirði bankahrunsins er nú að koma til baka og við siglum bara áfram á kerfislægum vexti. Engin tilraun er gerð til að nýta andvirðið í að endurstilla kerfin okkar sem eru vanstillt eftir síðasta áfall. Í stað þess að nýta svigrúmið, nýta hagstæð vaxtakjör í uppbyggingu er farin sú leið að draga úr umsvifum ríkisins sem verða orðin þau minnstu á öldinni undir lok þessa kjörtímabils.

Hæstv. fjármálaráðherra ber fyrir sig verðbólguhættu, ríkið megi vart hreyfa sig. Skilningur virðist hins vegar ekki vera á eðli kerfisins. Húsnæðismarkaðurinn er brotinn og drífur áfram verðbólgu. Kjarasamningar eru í haust en ríkisstjórnin fer með tómar hendur inn í þær viðræður, ekkert viðbótarfjármagn í húsnæðismál, enginn vilji til að mæta viðkvæmum hópum vegna verðbólgu. Hér er bara beðið eftir að vandinn vindi upp á sig. Hvort þetta er vankunnátta á rekstri velferðarríkis eða viljaverk veit ég ekki. En, virðulegi forseti, velferðarkerfinu okkar er haldið í gíslingu. Kostnaður við samneysluna mun rjúka upp stjórnlaust ef þessi pólitík framreiknings heldur áfram. Það er ekki pólitísk stefna að setja bara aðeins meira fjármagn í nýsköpunarsjóði. Velferðarkerfin móta grunninn sem allt hér byggir á og það er ekki hægt að skila auðu þar. Þessar innstæðulausu yfirlýsingar eru grafalvarlegt mál. Annaðhvort eru ráðherrar Vinstri grænna og Framsóknar viljandi að afvegaleiða þjóðina þegar þeir lofa velferðarumbótum sem enginn stuðningur er við í fjármálaráðuneytinu eða þau eru ekki læs á eigin fjármálaáætlun og þar með hver raunverulega stjórnar hérna. Ég veit eiginlega ekki hvort er verra.