152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:45]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég svari bara beint spurningu hæstv. fjármálaráðherra þá gætum við t.d. farið hægar út úr því ástandi sem nú er og ekki stefnt að því að vera komin í lágmark ríkisútgjalda á tekjusviðinu síðastliðin 20–30 ár. Það væri t.d. hægt að byrja þar. Það væri hægt að byrja á að horfa á þá tekjustofna sem hvergi er minnst á í þessari fjármálaáætlun þrátt fyrir að minnst sé á nauðsyn þess að hækka mögulega neysluskatta sem eru flötustu skattar sem hægt er að leggja á fólk. Það er hvergi talað um auðlindaskatta þrátt fyrir að við höfum fengið 5 milljarða út úr veiðigjaldi og við vitum að auðlindarentan skilar 30–70 milljörðum kr. Það er hvergi talað um fjármagnstekjuskatta, hvergi um eignarskatta þrátt fyrir að það sé umræða um allan heim. Það er ýmislegt sem hægt er að gera. En ég átta mig alveg á því að það er ekki pólitík hæstv. fjármálaráðherra og þess vegna kemur það mér ekkert á óvart. Það sem ég er að reyna að varpa hér fram er: Er það pólitík þessarar ríkisstjórnar? Það er nefnilega það sem ég er ekki viss um. Af því að þessi svör og þessar spurningar koma mér bara alls ekki á óvart í ljósi þess hver það er sem situr í fjármálaráðuneytinu. Hins vegar er vandi minn og okkar í Samfylkingunni sá að ítrekað er verið að koma upp í pontu og lofa hlutum, tala um aukningu. Ég var að vitna hér beint í orð hæstv. innviðaráðherra um að hann hefði mælt með verulegri aukningu fjármagns í húsnæðismál og hún kemur ekki. Það er þá bara hægt að sleppa því að segja þetta. Fólk verður að koma til dyranna eins og það er klætt.

Af hverju er skuldsetning ríkissjóðs betri en hún átti að vera? Það er vegna þess að peningastefnunni var beitt verulega. Hvað gerðist í kjölfarið? 450 milljarða kr. aukning skulda. Hjá hverjum? Hjá unga fólkinu okkar sem tók á sig skuldsetninguna beint í staðinn fyrir að ríkissjóður gerði það. Og nú er verið að fórna þessu fólki á verðbólgubáli og í vaxtahækkunum.