152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:08]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir framsöguna. Mig langaði til að varpa upp stöðunni í heimshagkerfinu vegna þess að hv. þingmaður hefur áður rætt á þessum vettvangi og fleiri í hans flokki um stöðu til að mynda bænda út af afurðaverði. Fólk er meðvitað um að þetta er mjög sérstakt tímabil. Verðhækkanirnar bitna á ákveðnum hópum. Ég held að margir geti stutt þá framsetningu. Getur þá hv. þingmaður tekið undir með þeirri framsetningu að þetta eigi að sjálfsögðu við um aðra tekjulága í samfélaginu? Þau eru að lenda í þessum hrávöruverðshækkunum sem hafa áhrif á verð á þeirra nauðsynjavörum. Er ákall Framsóknarflokksins um stuðning við bændur, sem eru vissulega líka einmitt oft tekjulágir, ekki líka til marks um mögulegan stuðning þeirra við sértækar aðgerðir fyrir tekjulægri heimili í landinu á tímum sem þessum?