152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:14]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni kærlega fyrir þetta. Það sem ég var að vísa til í minni ræðu og þingmaður spyr hvað ég var að meina þá er ég einfaldlega að tala um þá tölulegu staðreynd sem fram hefur komið að kaupmáttur hefur sjaldan eða aldrei verið betri á Íslandi almennt. Það sýna þessar rannsóknir okkur og þessi tölfræði. Ég er hins vegar ekki að gera lítið úr því og skil úr hvaða átt hv. þingmaður kemur þegar hann er að tala um þann hóp sem hann hefur talað fyrir. Ég geri mér alveg grein fyrir því að sá hópur er ekkert ofsæll af sínum kjörum og það hlýtur að vera markmið okkar allra til framtíðar að bæta úr þeirri stöðu sem þar er.