152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þennan doðrant, nærri 500 blaðsíður uppfullar ef væntingum. Því miður verð ég að segja alveg eins og er að þær væntingar valda miklum vonbrigðum fyrir þann hóp sem mest þarf á því að halda að verða var við að það sé eitthvað verið að gera fyrir hann. Í andsvörum áðan við hæstv. fjármálaráðherra talaði ég um þá furðulegu staðreynd í þessari bók að það á að hækka hjá öryrkjum næstu fjögur árin um 2,5%. Hann kenndi Hagstofunni um það. Þetta væri bara meðaltal. En þetta er bara ekkert rétt meðaltal og hefur aldrei verið rétt. Það er ömurlegt til þess að vita að staðreyndin skuli vera sú að við búum til fjármálaáætlanir sem eiga að taka á öllu kerfinu en samt er hvergi hægt að finna staf um það í þessari fjármálaáætlun, ég verð þá leiðréttur ef einhver veit betur, hvernig á að taka á og útrýma fátækt á næstu fjórum árum og hvernig á að taka á biðlistum í heilbrigðiskerfinu.

Í fjármálaáætluninni segir að strax á næsta ári verði tekið fyrsta skrefið í átt að nýju og sanngjarnara kerfi með 430 millj. kr. framlagi sem varið verður til ýmissa verkefna sem eigi að stuðla að fjölbreyttari starfstækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu. 430 milljónir. Það er nú allt og sumt. Fyrir tveimur vikum síðan seldi Bankasýslan 22,5% hlut í Íslandsbanka með 2,5 milljarða kr. afslætti en það eru ekki til meiri peningar í að endurskoða almannatryggingakerfið en 430 milljónir, sem er smáaur, langt fyrir neðan það sem fyrir löngu hefur verið lofað og var lofað af síðustu ríkisstjórn, þ.e. að taka á kerfinu og leiðrétta það. Ég spyr bara: Hvers konar forgangsröðun er það? Jú, það er einmitt sú forgangsröðun sem þessi ríkisstjórn er svo stolt af í þessari fjármálaáætlun.

Nú blasir við að lífeyrir almannatrygginga þarf að hækka verulega næstu áramót til að koma í veg fyrir kaupmáttarrýrnun vegna verðbólgu sem mælist í dag 6,7%. Það er ekki hægt að sjá að fjármunirnir séu til staðar fyrir þeirri hækkun í fjármálaáætlun, þvert á móti. Forsendur fjármálaáætlunarinnar eru þær að verðbólgan verði strax komin niður í 3,5% á næsta ári og 2,5% árið 2024. Þetta hefur örugglega verið áætlað með sólgleraugum. Ég leyfi mér að draga í efa að þessar forsendur haldi, sérstaklega í ljósi þess að nú geisar stríð í Úkraínu og alls óvíst er um afleiðingar þess á verðlag. Þá er húsnæðisverð í hæstu hæðum og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun með hækkandi húsnæðisverði og lóðaskortur er einnig á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef áhyggjur af því að forsendur þessarar áætlunar muni ekki halda. Ef það gerist mun ríkisstjórnin þurfa að endurskoða fjármálaáætlun. Þá óttast ég að gripið verði til niðurskurðar. Þá hefur orðræða ríkisstjórnarinnar undanfarnar vikur um fyrirhugaða endurskoðun almannatryggingakerfisins gefið það til kynna að í stað þess að leiðrétta kjaragliðnun þurfi að endurskoða kerfið svo það verði auðveldara að sparka fólki út úr því. Ég óttast það að ríkisstjórnin muni leggja til starfsgetumat og að öryrkjar þurfi að fara að berjast fyrir áframhaldandi lífeyrisgreiðslum. Ég óttast að öryrkjar verði neyddir út á vinnumarkaðinn með hótunum um að annars verði bætur skertar. Þessi ótti vex þegar ég les kafla 27 í fjármálaáætluninni. Aðeins er gert ráð fyrir 2,5% hækkun næstu fjögur árin. Það heldur hvorki í við verðlagsþróun né fólksfjölgunarþróun. Ef þetta er raunin þá er verið að boða það að ríkisstjórnin vill fækka þeim sem eiga rétt á örorku.

Auk þess er uppgefið markmið ríkisstjórnarinnar að draga úr nýgengi örorku. Þetta markmið er vanhugsað. Aukið nýgengi örorku undanfarinna áratuga er ekki vegna þess að fólk sé að svindla sér inn í kerfið. Þetta er vegna þess að vitundarvakning hefur átt sér stað gagnvart fjölda sjúkdóma, sérstaklega geðsjúkdómum. Sú vitundarvakning er af hinu góða og það er af hinu góða að við ætlum að aðstoða fólk sem glímir við alvarleg geðræn vandamál. En við gleymum oft því furðulega í þessu kerfi sem er hið svokallaða færiband í örorku. Ríkisstjórnin er með annarri hendinni að neita fólki um aðgerðir. Þúsundir barna eru á biðlista eftir ADHD-greiningu eða öðrum greiningum til að þau geti stundað nám og átt framtíð. Með því að neita þessum börnum um þá þjónustu sem þau eiga að fá strax og setja þau á biðlista svo jafnvel mánuðum og árum skiptir er ríkisstjórnin að framleiða á færibandi öryrkja með annarri hendinni. Síðan koma þeir og segja: Öryrkjum fjölgar allt of mikið, við þurfum að fækka þeim með hægri hendinni. Ég held að þeir sem eru í ríkisstjórn þurfi að horfa í spegil og átta sig á því að lausnin er hjá þeim. Lausnin felst í því að koma fram við fólk þannig að það sé ekki verið að senda það í örorku að óþörfu. Ég vísa því til föðurhúsanna að langtímamarkmið eigi að vera að draga úr nýgengi örorku. Markmiðið á að vera að efla heilbrigðiskerfið, vinna á biðlistum, fækka slysum, efla geðheilbrigðisþjónustu. Það er rétta aðferðin. Að laga þess í stað vandann á vitlausum enda er að kenna öryrkjum um vandann.

Þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega fundið breiðu bökin, hún hefur fundið breiðu bökin í þessu kerfi sem er almannatryggingakerfið. Þessi breiðu bök hafa þurft að berjast áratugum saman. Kjaragliðnunin sem við höfum orðið vör við er að nálgast 50% hjá þessu fólki. Það þýðir á mannamáli að þess vegna er stór hópur almannatryggingaþega í fátækt og sárafátækt en væri það sennilega ekki ef séð hefði verið til þess að leiðrétta þessa kjaragliðnun. Allir hafa lofað því en enginn gerir neitt. Kjaragliðnun eykst. Í því samhengi er auðvitað stórmerkilegt að verða vitni að því á sama tíma og þessi kjaragliðnun er í almannatryggingakerfinu, sem veldur því að það er aldrei hækkað hjá almannatryggingaþegum jafn mikið og verðbólgan er eða umfram hana, þá verður þar af leiðandi enginn kaupmáttur og kjaragliðnunin verður alltaf meiri og meiri. En hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessu? Jú, þeir ætla að halda 2,5% þannig að það verður mun meiri kjaragliðnun næstu fjögur árin. Og þeir ætla að bæta í. Nú eru þeir með frumvarp í samráðsgátt um að taka líka lífeyrissjóðina inn í þetta kerfi, að reikna út verðtrygginguna einu sinni á ári. Og hvers vegna? Jú, vegna þess að það er svo erfitt fyrir Tryggingastofnun að reikna þetta í hverjum mánuði til að fá rétta niðurstöðu svo það þurfi ekki að vera að endurgreiða sumum og skerða suma einu sinni á ári. Ég veit ekki hvort Tryggingastofnun sé svona vanhæf, að þeir séu kannski með talnaband og blýant og strokleður. En ég get ekki ímyndað mér annað en að þeir séu með tölvur og ef lífeyrissjóðirnir geta reiknað þetta út mánaðarlega þá hlýtur Tryggingastofnun að geta reiknað þetta út mánaðarlega og það á ekki að gera þá kröfu á almannatryggingaþega að reyna að reikna verðbólguna út mánaðarlega. Ef ríkisstjórnin getur það ekki, hvernig í ósköpunum á venjulegt fólk í almannatryggingakerfinu að geta það? Og að kenna því um og reyna að nota það sem afsökun til að búa til enn meiri kjaragliðnun er ömurlegt.

Þess vegna segi ég það að staðreyndin liggur í því, því miður, að þessi fjármálaáætlun er, eins og ég sagði í upphafi, skáldskapur. Það eru engar staðreyndir í þessu vegna þess að það er alveg sama hvað maður skoðar, í hvaða málaflokki sem það er, það er aldrei sett nægilegt fjármagn til að geta staðið við það sem á að gera. Það er bara búin til ein tala, 2,5% hækkun. Allt á að vera óbreytt eins og alltaf hefur verið hingað til. Þeir ríku verða ríkari, þeir fátæku verða fátækari. Það er stefnan.