152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:33]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fjallaði um það áðan í andsvari hvernig sjúkrarýmum hefur fækkað miðað við mannfjölda og hvernig raunframlög til Landspítala hafa staðið í stað miðað við íbúafjölda á undanförnum árum. Svo er það auðvitað mönnunin, það er klassískt vandamál. Það eru miklar yfirlýsingar í heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar um að það verði tekið á þeim málum, en þetta er allt saman eitthvað sem kostar peninga. Það skiptir máli í heilbrigðismálum að forgangsraða peningum vel og að þjónusta sé veitt á réttu þjónustustigi o.s.frv., en það kostar líka peninga að gera hlutina almennilega, t.d. að efla mönnun. Það þarf að gera það eftirsóknarvert að starfa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Annað sem ég vil vekja athygli á eru biðlistarnir, sem er nú mikið talað um hér í þingsal. Í desember biðu 738 börn eftir greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð, meðalbiðtími 12–14 mánuðir. 326 börn á biðlista núna í desember hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð. Þetta er eitthvað sem umboðsmaður barna hefur gagnrýnt sérstaklega. Þetta eru risastórar áskoranir og það kostar peninga að taka á þessu. Þess vegna eru það ofboðsleg vonbrigði að sjá í þessari fjármálaáætlun að það sé gert ráð fyrir raunvexti útgjalda til sjúkrahúsþjónustu t.d. upp á ekki nema 2 milljarða á ári. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann haldi að það fari eiginlega á þessu kjörtímabili með þessu áframhaldi ef það á að fjársvelta þennan málaflokk svona svakalega.