152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ef við byrjum á kostnaði, hvað kostar að hafa einstakling á örorku? Það kostar það að hann fær greiðslur í hverjum mánuði. En hvað kostar það ríkissjóð að segja við þennan einstakling: Farðu út og finndu þér vinnu við hæfi ef þú vilt, þú mátt vinna, segjum bara í tvö ár. Þá koma til baka skattgreiðslur. Það kostar ríkissjóð ekki krónu heldur þveröfugt. En það undarlega er að við erum líka að tala um kostnað vegna biðlista barna eftir aðgerðum. Það er ekki kostnaður. Ef við ætlum ekki að taka á vanda þessara þúsund barna sem eru á biðlista, hversu mörg börn af þeim gætu endað þá sem öryrkjar? Það er gjörsamlega margsannað að ef þú getur sett eina krónu inn í svona kerfi þá færðu lágmark 10 til baka. Þú færð þær ekki strax en þetta skilar sér á endanum vegna þess að það skilar sér á þann hátt að viðkomandi lendir ekki inni í kerfinu, hann þarf ekki eins mikið á heilbrigðisþjónustu að halda og verður vinnandi þegn. En eins og ég hef alltaf sagt og mun alltaf segja: Eitt barn á bið er einu barni of mikið. Það er þessari ríkisstjórn til háborinnar skammar hvernig hún hefur komið fram við fólk og sérstaklega í því samhengi þegar fólk er í þeirri aðstöðu að vera í fátækt ár eftir ár með börn og það er ekkert gert, því miður.