152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er rosalega einföld pólitík sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér upp, þ.e. að segja fullt af fallegum orðum, gera hitt og þetta, setja smápening hérna, setja smá lög þarna en þegar allt kemur upp úr tunnunum þá er ekkert að marka það. Það skilar ekki árangri. Lögin virka ekki. Það er ekki farið eftir þeim og við endum í „þú segir, hann segir“, í einhverju kapphlaupi um hvað er í raun og veru rétt. Það er gríðarlega hvimleitt þegar stjórnarþingmenn koma hingað upp og segja hversu æðislegar allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili vegna Covid o.s.frv. voru og það sýni fá gjaldþrot og ýmislegt svoleiðis á meðan öll varúðarmerki, t.d. vegna verðbólgunnar, eru á fleygiferð. Húsnæðismarkaðurinn er í verra ástandi núna en hann var áður en farið var í allar þessar reddingaraðgerðir. Það er enn vandamál í heilbrigðiskerfinu ofan í álagið sem Covid olli. Hvar er viðbragðsáætlun við því álagi sem varð vegna Covid? Hvergi. Ekkert. Hver eru viðbrögðin vegna kjararýrnunar þeirra sem eru á almannatryggingum? Hvergi að finna í þessari áætlun. Hvers vegna, þrátt fyrir uppsafnaða viðhaldsþörf upp á 80–85 milljarða í samgöngukerfinu, er verið að draga fjárheimildir þar saman um 7 milljarða? Ekki hugmynd. Það er eins og þau átti sig ekki á því að það þarf sums staðar að fjárfesta til að skila árangri. Þó að það kosti, (Forseti hringir.) það sé einskiptiskostnaður til einhvers tíma, þá er ábatinn af því til lengri tíma eitthvað sem við þurfum að sækja.