152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ef við byrjum á samgöngumálunum þá höfum við, eins og hv. þingmaður veit, kannski gagnrýnt að við séum alltaf að tala um átök og við fórum í fjárfestingarátak og að hluta til, því miður, gengu aurarnir ekki út og það er eitthvað innan kerfis sem við þurfum að laga. Við höfum fengið m.a. Vegagerðina og fleiri aðila, til að ræða þau mál við okkur, þ.e. að við séum tilbúin. Það sama á kannski við um húsnæðismarkaðinn, að vera tilbúin með hvort heldur það eru niðurbrotnar lóðir eða fram í tímann. Þá er ég ekki að gagnrýna Reykjavíkurborg því ég held að hún hafi staðið sig best af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hvað það varðar. En það breytir því ekki að það þarf að gera. Það sama á við líka í mínu kjördæmi, sveitarfélögin þurfa að vera tilbúnari til að taka kallinu þegar það kemur til að bregðast við þeim vanda sem þau standa frammi fyrir. Varðandi húsnæðiskerfið þá var gert ráð fyrir, þegar við lögðum af stað með þetta í kringum kjarasamningana 2015, að ráðast í ákveðinn fjölda, eins og hv. þingmaður væntanlega man, í uppbyggingu félagslegra leiguíbúða og framlögin hafa verið hærri heldur en gert var ráð fyrir á þeim tíma þrátt fyrir allt. Eins og hv. þingmaður veit líka þá hefur því miður ekki tekist að koma út öllum þessum stofnframlögum enn þá og það er margt sem þar er undir. En fyrst og fremst, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, m.a. frá ASÍ, þá er það vegna þess að það vantar lóðir til þess að byggja á. Ég held að það standi ekki á ríkinu að bregðast við þegar við sjáum fyrir okkur að geta komið öllum þessum fjármunum út í vinnu og eins og við vitum er áætlunin sannarlega skoðuð á hverju ári og við þurfum þá bara að takast á við það ef við sjáum að þetta gerist því eins og hv. þingmaður þekkir er deiliskipulag og annað slíkt mjög lengi í ferli. (Forseti hringir.) Eitt af því sem hefur verið reynt að laga hér núna er að breyta þessu fyrirkomulagi og létta regluverkið.