152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:36]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er vinstri maður og mér blöskrar þegar flokkur sem kennir sig við vinstri og leiðir ríkisstjórn leggur fram fjármálaáætlun þar sem stendur mjög skýrum stöfum að draga eigi rækilega úr umfangi ríkisins í hagkerfinu og það eru engin sérstök fyrirheit um aukinn jöfnuð á tekjuhliðinni, ekkert slíkt. Þvert á móti er talað um að vægi neysluskatta muni aukast á tímabilinu sem eru regressífustu skattar sem um getur. Þannig að já, dauði og djöfull, segjum það þá bara. En það er alveg sama hvaða einstöku atriði hv. formaður fjárlaganefndar dregur fram, það breytir ekki þeirri stóru mynd sem ég talaði um áðan og snýst um að raunvöxtur samneyslunnar á þessu tímabili verður í sögulegu lágmarki, minni en alla jafna hefur tíðkast á þessari öld.

Mig langar að lokum að spyrja: Á bls. 111 er talað um sölu ríkiseigna (Forseti hringir.) og talað um að selja eignir umfram Íslandsbanka, selja (Forseti hringir.) fleiri eignir seinna á kjörtímabilinu. Hvaða eignir eru það sem ríkisstjórnin ætlar að selja? Verður það gert með sama hætti og með Íslandsbanka, á undirverði til útvalinna?