152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:56]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, þetta virðist einhvern veginn vera svona. Ég sendi fyrirspurn á hæstv. innviða ráðherra einmitt um þetta, varðandi vaxtabætur, en hæstv. ráðherra vildi bara leggja þetta niður og sagði að það væri verið að vinna við önnur úrræði. Maður sér þau ekki. Stofnframlög voru mjög mikilvæg, enda hafa flest af þeim velferðarmálum sem áunnist hafa verið í gegnum kjarasamninga og þetta er eitt af þeim. Þau eru mjög mikilvæg fyrir tekjulága einstaklinga til að koma sér öruggu skjóli yfir höfuðið, sem er bara lífsnauðsynlegt og einn af þeim öryggisþáttum sem fólk þarf að búa við. Ég átta mig ekki á því, er bara verið að sýna verkalýðshreyfingunni puttann? Ég upplifi það einhvern veginn þannig að það eigi að láta verkalýðshreyfinguna finna að hún ráði þessu ekkert. En manni finnst þetta sérstakt þegar við erum búin að sjá að úrræði sem þessi, sem Bjarg hefur m.a. verið að byggja, hafa þjónað tilgangi. Fólk hefur verið mjög ánægt og komist í öruggt skjól og það er ekkert verið að henda fólki út þó að tekjurnar hækki eitthvað pínulítið, þá fer það bara inn á markaðsleigu. Fólk er því komið í öruggt skjól til lengri tíma og það er það sem hefur skort upp á á íslenskum leigumarkaði. Þarna er kannski verið að búa til vísi að einhverjum leigumarkaði sem getur gagnast fólki og getur verið fyrirsjáanlegur. Ég tek undir það, ég sé ekki að ráðherrarnir fylgi því eftir sem þeir segja í málefnasamningi og á hátíðis- og tyllidögum.