152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:11]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Beint svar við spurningu hans er: Nei, það er ekki bara aðila vinnumarkaðarins að leysa þann vanda. Sá vandi verður ekki leystur á einu borði. Hann hlýtur að verða leystur í samstarfi. Ég get tekið undir mjög margt af því sem hv. þingmaður fór yfir um húsnæðismálin. Ég ætla hins vegar að benda á að samkvæmt öllum rannsóknum og hagtölum hefur staða heimilanna styrkst. Hann benti réttilega á að eignastaða heimila hefði batnað. Við höfum ítrekað fundað um þennan þátt sem og marga aðra í okkar efnahagsforsendum og okkar sýn á efnahagsmál. Ef ég leyfi mér, virðulegi forseti, að draga það saman í einfalda mynd þá höfum við kannski vanmetið fyrst og fremst eftirspurnarhliðina. Það voru mun fleiri sem komu inn á íbúðamarkaðinn en spár sem gerðar voru um húsnæðismarkaðinn og áætlanir gerðu ráð fyrir. Það höfum við séð. Ég leyfi mér að vitna í gögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og umræður við hana við fjárlaganefnd í þá veru. Það hafa líka jákvæð merki orðið á húsnæðismarkaði. Það er t.d. núna kominn húsnæðismarkaður víða um landsbyggðina sem verður til þess að verðmæti húseignar er farið að verja það að fólk ráðist í byggingar.

Þetta verður eitt af þeim málum sem þarf að glíma við áfram. Ég ætla ekkert að segja annað. Ég ætla heldur ekki að segja að þetta sé hlutverk einhvers, þetta er hlutverk margra aðila, hvort sem það eru sveitarfélög, hið opinbera, launþegahreyfingin, atvinnurekendur og síðan iðnaðurinn sjálfur, að takast á við.