152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:25]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla svo sem ekkert að fara í langar ræður um sölu Íslandsbanka. Ég horfi bara á þetta með þessum hætti og svara þessu með þeim hætti sem ég geri hér. Hv. þingmaður nefndi að þingmenn Samfylkingar hefðu varað við þessu og fleiri. Ég er bara ekki viss um það yfir höfuð hver er vilji þingmanna til að selja Íslandsbanka, ég velti því oft fyrir mér. Ég held þeir myndu aldrei þora út fyrir hússins vegg af því að það eru alltaf óvissutímar. En þetta var gert og þetta er þróunin, við skulum ekki deila um hana.

Hv. þingmaður nefnir hér atriði eins og kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Ég vil rifja það upp að á undanförnum árum hefur verulegur hluti þess aukna fjármagns sem varið hefur verið til heilbrigðismála, sem við köllum stundum nýja fjármuni, þó að það sé sérstakt orð, farið í að draga úr kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Við drögum heldur ekki fjöður yfir það að enginn einn málaflokkur hefur fengið aðra eins innspýtingu á undanförnum árum og heilbrigðismál. En menn segja alltaf meira og það þarf alltaf að gera meira. Ég ætla, vegna þessara andsvara hv. þingmanns, að draga fram í umræðuna að við þurfum líka að hafa kjark til þess, þegar við erum með 260 milljarða málaflokk undir, að ræða hlutverk og skipulag. Þess vegna fagna ég þeirri umræðu að nú eru menn loksins farnir að tala um að rýna hlutverk þessara stóru sjúkrahúsa okkar. Og hvernig getum við líka stutt við aðrar heilbrigðisstofnanir? Hvernig geta þær tekið við verkefnum? Hvernig getum við leyst þetta með skilvirkum hætti, skynsamlegum hætti með heill sjúklinga í huga? Hvernig getum við nýtt þessa fjármuni betur? Það er það verkefni sem við stöndum frammi fyrir og það skulum við ræða.