152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan bregðast stuttlega við þessu varðandi fjárfestingar ríkissjóðs. Á bls. 89 og áfram í útprentaða eintakinu erum við með rammagrein 7 sem fjallar um fjárfestingarstigið og þar erum við með einn lið sem er önnur ótilgreind fjárfesting og svo er aðeins komið inn á það hér á bls. 90 hvernig önnur ótilgreind fjárfesting felur m.a. í sér fjárfestingarsvigrúm á síðari hluta áætlunartímabilsins. Ef ég má lesa hér, með leyfi forseta,

„Þá fellur einnig undir þennan lið tiltekið fjárfestingarsvigrúm sem innbyggt er í forsendur áætlunarinnar til að viðhalda fjárfestingarstigi ríkisins og vega á móti lækkun á framlögum til fjárfestinga þegar stærri verkefnum lýkur.“

Það þarf eiginlega að lesa þetta saman þegar maður horfir t.d. sundurgreint á samgöngur, fjárfestingar og aðra slíka liði og spyrja sig: Hvert er heildarsvigrúmið sem er frátekið í áætluninni fyrir fjárfestingar? Ég vil sérstaklega vekja athygli á því sem stendur neðarlega á bls. 90 þar sem komið er inn á það að áætlanagerð í þessum efnum hafi ekki reynst allt of árangursrík og við sitjum oft uppi með gríðarlega vel fjármagnaðar framkvæmdir sem komast ekki á dagskrá. Þingið vill gjarnan, eins og hér er verið að ræða, viðhalda ákveðnu fjárfestingarstigi og hefur talið sig vera með rétta forgangsröðun. Hvað á að gera? Við höfum t.d. verið að forgangsraða mikið í Landspítalann. Svo eigum við þar uppi nú um síðustu áramót 10 milljarða fjárfestingar sem eru fullfjármagnaðar af þinginu (Forseti hringir.) og þarna má spyrja sig hvort við þurfum ekki að vera með sveigjanlegra fyrirkomulag sem gæti opnað fyrir það (Forseti hringir.) að undanþágur gætu breytt forgangsröðuninni til að viðhalda fjárfestingarstiginu.