152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er kannski samtal frekar en andsvar sem á sér stað hérna en ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra hvað það varðar að væntingar eru oft úr tengslum við raunheima. Ég held að það sé að einhverju marki vegna sömu vandamála og stjórnvöld komu sér í fyrir löngu. Þá var reglan alltaf sú að það var alveg upp á starfsmann þjálfaður sá fjöldi flugumferðarstjóra sem þurfti, bara upp á punkt. Ekki var talin ástæða til að búa til neitt atvinnuleysi í þeirri stétt og stéttin hafði mjög sterka samningsstöðu lengi vel og er auðvitað mikilvæg fyrir þjóðarhag, út frá flugöryggi og þar fram eftir götunum. Ég held að að einhverju marki séum við kannski á sama stað hvað samgönguframkvæmdirnar varðar. Á meðan við höfum ekki stöðugri framtíðarsýn um vöxt þessara framkvæmda þá treysta nýir aðilar, jafnvel fjársterkir, sér ekki til að byggja upp fyrirtæki sem geta komið inn á þennan markað og sinnt þeim verkefnum sem verið er að bjóða út, sem orsakar það síðan að það eru sárafá fyrirtæki sem sinna þeim flestöllum, sem sitja að verkefnunum þegar á reynir. Ég held að þessar sveiflur og lítill fyrirsjáanleiki séu sjálfstætt vandamál hvað það varðar að við náum að byggja hér upp verktakamarkað þar sem burðugum aðilum sem eru bærir til að vinna umfangsmikil verkefni fjölgi jafnt og þétt. Ég man ekki eftir neinu nýju verktakafyrirtæki sem hefur formast síðan mörg hver voru endurreist í kjölfar bankahrunsins. Það er eitthvað sem við ættum að huga að, held ég, og það mun skila ríkissjóði, Vegagerðinni og öðrum, Ríkiskaupum og hverjum þeim sem standa í útboðum, betra verði til framtíðar. Ég held að þetta sé þáttur sem þarf að koma inn við skoðun þessarar heildarmyndar.