152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það er mikilvægt að fjármálaáætlun sé sem nákvæmust og raunhæfust en ekki bara óskalistar yfir það sem gott og æskilegt væri að gera. Þessi fjármálaáætlun ber þess merki að þar er talið upp ýmislegt sem mikilvægt þykir. En ef við skoðum þetta nánar þá eru þetta oft framreikningar á núverandi stöðu eða jafnvel skorið niður í þeim málaflokkum sem um ræðir. Svo nefnd séu tvö af brýnustu úrlausnarmálum samtímans: Húsnæðisvandanum verður mætt með því að draga úr útgjöldum hins opinbera til húsnæðismála um 1,4 milljarða kr. Loftslagsvánni og orkuskiptum, sem eru á allra vörum, verður mætt með því að láta stuðning við orkumál dragast saman um 400 millj. kr. Annað dæmi um málaflokka þar sem lýst er alls konar góðum hugmyndum án þess að fjármagn fylgi eru t.d. lýðheilsa, stjórnsýsla, velferðarmál og jafnréttis- og mannréttindamál. Þarna eru mörg fögur áform, m.a. aðgerðir gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, auk aðgerða til að vinna gegn kynbundnum launamun. Þarna er talað um forvarnir, heilsueflandi starf, heilsueflandi skóla, heilsueflandi samfélag og svo mætti tala áfram, íþróttir, æskulýðsstarf, öldrunarstarf, það á að efla heilsu aldraðra, stuðla að heilsueflingu á vinnustöðum. En allri þessari góðu og fyrirbyggjandi heilsueflingu virðist ekki fylgja fjármagn. Samkvæmt fjármálaáætluninni munu framlög stjórnvalda í þessi mál dragast saman um tæpa 2 milljarða kr. Útgjöld í málaflokkinn nema rúmum 12 milljörðum kr. fyrir þetta ár en munu verða 10,5 milljarðar á næsta ári. Er hér um að ræða slysalega vanfjármögnun sem á að mæta með öðrum hætti síðar eða eru þetta innantóm orð og jafnvel bara fagurgali?