152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:11]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er auðvitað áhugavert og sameiginlegt áhugamál okkar að vera með góða samneyslu. Það kemur hins vegar fram á bls. 36 að samneysla hins opinbera hafi að jafnaði aukist um 2% á hverju ári alla þessa öld, en gert sé ráð fyrir að á næstu árum aukist hún aðeins um 1% og það þrátt fyrir þær áskoranir sem við þurfum að glíma við, loftslagsvána o.fl., og þrátt fyrir lýðfræðilegar breytingar og ýmis verkefni sem bíða okkar. Ég spyr: Hvernig samræmist þetta auknum metnaði þegar kemur að þessum málaflokkum og hvernig á að leysa það? Ný skýrsla um Landspítalann og heilbrigðiskerfið almennt sýnir okkur að núllstaða er vond.

Í öðru lagi langar mig að spyrja aðeins varðandi húsnæðismálin. Ekki eru margir dagar síðan hæstv. innviðaráðherra kom hér í sérstaka umræðu sem ég hafði boðað til og talaði fjálglega um 20.000 nýjar íbúðir á næstu fimm árum og ýmis verkefni. Ráðherra sagði þá að hann hefði lagt slíkar tillögur fyrir ríkisstjórnarfund. Nú langar mig einfaldlega að spyrja: Kannast hæstv. forsætisráðherra við að þessar tillögur hafi borist inn á þennan fund og var þeim hafnað? Ég sé nefnilega ekki nein merki um það sem hæstv. innviðaráðherra talaði um í þessari fjármálaáætlun, þvert á móti. Verið er að draga saman í húsnæðismálum um 1,4 milljarða og í stofnframlögum um 2 milljarða. Var þetta innstæðulaust hjá hæstv. innviðaráðherra eða hafnaði afgangurinn af ríkisstjórninni tillögum hans?