152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem mér finnst að mörgu leyti stórmerkilegt plagg vegna þess að mér finnst nú vanta sannleikann í hana að mörgu leyti. Ég sótti málþing Velferðarsjóðs barna um fátækt, sem haldið var í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar laugardaginn 6. mars síðastliðinn. Ég var, að ég held, eini þingmaðurinn ásamt hæstv. forsætisráðherra, sem ég held að hafi verið eini ráðherrann þarna, sem segir mikla sögu, finnst mér, um áhugann á því. Þar kom fram spurning hvort við hefðum yfir höfuð efni á því að hafa börn í fátækt. Það kom fram spurning um hvort eðlilegt væri að rukka börn fyrir skólamáltíðir, leikskóla, tannréttingar, fótboltaæfingar og tómstundir. Auðvitað á þetta allt að vera gjaldfrjálst fyrir börnin. Ísland er eitt ríkasta samfélag í heimi og það er okkur til háborinnar skammar að hafa þúsundir barna í fátækt. Einnig kom fram á þessari ráðstefnu, sem var stórmerkilegt, að fyrir hverja 1 kr. sem við leggjum í þennan málaflokk fáum við 10 til baka. Ég spyr: Er ástæðan sú fyrir því að það er ekki í fjármálaáætluninni að útrýma fátækt barna, að forsætisráðherra ætlar kannski bara að gera það á þessu ári? Vegna þess að ef við leggjum 10 milljarða í þetta samkvæmt þessari stærðfræði þá fáum við 100 milljarða til baka. Við höfum oft tekist á um það og rætt að ákveðnir hópar geti ekki beðið eftir réttlæti lengur, en ég tel að við ættum kannski að horfa á þetta út frá því sjónarmiði að við ættum að segja: Börnin geta ekki beðið lengur eftir réttlætinu. Ef þetta er staðreyndin, að þetta skili sér aftur til þjóðfélagsins, er þá ekki sjálfsagt að setja peninga í þetta? Og spurningin er: Af hverju er þetta ekki í fjármálaáætlun? Er svarið kannski að það eigi bara að gera þetta núna?