152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:37]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í jafnréttismál. Sá málaflokkur er hjá hæstv. ráðherra og ég hef í sjálfu sér beint þessari spurningu til hennar áður en geri það aftur í aðdraganda kjarasamninga, þ.e. um viðvarandi slæma stöðu stórra kvennastétta. Við þekkjum öll stöðuna um óútskýrðan launamun kynjanna sem vissulega hefur farið mjög minnkandi, sem er jákvætt, og svo þekkjum við veruleikann um annan launamun kynjanna, sem er reyndar sjálfstætt vandamál. Sá launamunur er langtum meiri og haggast því miður lítið og ég lít svo á að hann sé hin pólitíska áskorun. Þessi munur stafar af því, eins og við þekkjum af viðhorfum, að kvennastéttir eru verðmetnar mun lægra á vinnumarkaði en aðrar stéttir með sambærilega ábyrgð og sambærilega menntun. Við höfum séð þetta birtast í því að þegar hlutfall kvenna í stéttum hækkar þá fara kjörin lækkandi, eins og gerðist með grunnskólana. Við í þingflokki Viðreisnar lögðum fram þingsályktunartillögu um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta árið 2017. Mig langaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvar sér þess merki í fjármálaáætlun að ríkisstjórnin sé að stíga niður fæti hér? Verða einhverjar sérstakar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar í þágu þessa markmiðs?