152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:42]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Næst langaði mig til að spyrja hana um þá stöðu sem nú er uppi á heimsvísu og varðar hagsmuni og öryggi Evrópu allrar í samhengi við fjármálaáætlunina. Þetta stríð á sér stað núna með hernaði, það á sér stað rafrænt stríð, það á sér stað það sem mætti kalla efnahagslegt stríð í formi efnahagsaðgerða og viðskiptahindrana. Þjóðaröryggismál hafa sjaldan verið brýnni fyrir íslenska þjóð en akkúrat núna. Ég nefni sérstaklega veika stöðu Íslands í samhengi við netöryggi. Við erum samkvæmt Alþjóðafjarskiptasambandinu í 58. sæti af 182 ríkjum, langtum neðar en Norðurlöndin öll. Mig langaði til að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því núna, í samhengi við fjármálaáætlun vitaskuld en jafnframt á almennari nótum kannski, hvaða svör birtast hér varðandi varnir og öryggi. Þjóðaröryggisstefnan var sett árið 2016. En hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér að ríkisstjórnin geti gert núna til að styrkja þær stofnanir og þá innviði sem hafa þessi verkefni með höndum? Eru einhver ný verkefni í pípunum sem ástæða er til að upplýsa um hér og nú?