152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ef ég byrja kannski á hinu almenna þá er ég þeirrar skoðunar að það hafi verið mikið gæfuspor að ráðast í mótun þjóðaröryggisstefnu sem var unnin með atbeina fulltrúa allra flokka á Alþingi og samþykkt hér á Alþingi 2016. Hún hefur sett öryggismálin í það samhengi að við erum að horfa á þau sem breiðan málaflokk þar sem skiptir máli að hafa ólíka þætti undir, hvort sem það er öryggi gagnvart farsóttum, fæðuöryggi, netöryggi, eins og hv. þingmaður nefndi sérstaklega, hin hefðbundnari hernaðarlegu öryggismál — við getum rætt um upplýsingaóreiðu og upplýsingaöryggi í lýðræðissamfélagi og svo mætti lengi telja. Mig langar að vekja athygli á því, því að þessi mál hafa kannski ekki mikið verið til umræðu hér á Alþingi fyrir innrás Rússa í Úkraínu, að gefin var út ágæt skýrsla um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar 2020 sem sýnir að við erum á grundvelli stefnunnar búin að breyta vinnulagi okkar í stjórnkerfinu út frá öryggismálum, sem ég tel vera gott.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega netöryggismálin og það er alveg hárrétt að þar getum við gert betur og við gerum ráð fyrir hálfum milljarði í aukningu frá árinu 2025 til að mæta netöryggismálum og fjölþáttaógnum. Í ráðuneyti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála eru fjarskiptin eitt lykilsvið þar sem er í mótun aðgerðaáætlun til fimm ára sem mun byggja á áherslum netöryggisstefnunnar. Þar erum við m.a. að tala um rannsóknir og þróun á sviði netöryggis, aðgerðir sem efla viðbragð við netárásum og stuðla að bættu lagaumhverfi og löggæslu þar sem sérstaklega er hugað að vernd barna og annarra viðkvæmra hópa. Þetta er alveg gríðarlega víðfeðmt af því að netið er bara svo stór hluti af lífi okkar allra og þegar við ræðum netöryggi þá er það í raun og veru okkar mikilvægu innviðir, samskiptatæki og umhverfi í daglegu lífi þannig að þetta er alveg feikilega mikilvægt. Við erum að bæta töluvert í. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að segja að ekki þurfi að gera betur á þessu tímabili, það kann vel að vera. En ég held að (Forseti hringir.) þetta sé mjög mikilvæg áhersla sem nokkuð góð samstaða er um hér í þessum sal.