152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:01]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir þessar fínu spurningar. Það er einmitt ágætt að fá tækifæri til að fara aðeins yfir þá staðreynd að á síðustu árum og áratugum höfum við ekki haft raunhæfar upplýsingar og alls ekki í rauntíma um hvað er að gerast á íbúðamarkaði. Þannig hafa Samtök iðnaðarins framkvæmt talningar og er það eiginlega eina raunhæfa verkfærið sem hefur verið til til að átta sig á stöðunni. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er ung stofnun en hefur tekið mjög fast utan um þetta verkefni og við ákváðum á síðasta kjörtímabili að færa svokallaða mannvirkjaskrá yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hún er orðin rafræn frá því í nóvember síðastliðnum sem og húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna þannig að smátt og smátt erum við að fá miklu betri upplýsingar, raunhæfar upplýsingar, þar sem við getum tekið stöðuna dag frá degi. En enn þurfum við að treysta á talningar frá Samtökum iðnaðarins og mér er kunnugt um að þeir séu akkúrat á lokametrunum með það og munu væntanlega kynna þær á næstu dögum. Það eru einhverjar vísbendingar um að fleiri íbúðir séu þar en við höfum óttast.

Varðandi framlögin er það þannig, eins og ég sagði í ræðu minni, að þegar greiningarnar liggja fyrir munum við útfæra það nánar. Ég er sammála hv. þingmanni. Það gengur ekki að stofnframlögin lækki en það þýðir hins vegar heldur ekki að hækka stofnframlög þegar staðreyndin er sú að þó nokkrir aðilar, eins og Bjarg, hafa þurft að skila lóðum, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, vegna þess að þær hafa ekki verið í byggingarhæfu ástandi. Þó að lóðir séu til eru þær ekki tilbúnar undir byggingar. Það er ekki nóg að henda peningum í stofnframlög ef hitt er ekki til. (Forseti hringir.) Það er það sem við erum að leggja áherslu á núna í greiningarvinnunni.