152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:15]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við getum verið sammála um að það blasir við að auka þarf lóðaframboð en við þurfum auðvitað að fá það greint alveg skýrt niður hvar það er og hvernig og þá einmitt í samræmi við mannfjöldaspá og húsnæðisáætlanir einstakra sveitarfélaga. Það er sú vinna sem er í gangi núna og hún er mjög mikilvæg vegna þess að þá getum við komið með sérsmíðaðar lausnir. Þó svo að það taki einhvern tíma að smíða fyrstu þingsályktunartillögu í húsnæðismálum sem er lögð fyrir Alþingi, hún verður ekki lögð fram á þinginu í haust, þá er það líka mikilvægt og ég tek undir með þingmanninum að hér þurfi að bretta upp ermar strax. Þess vegna er þessi starfshópur að störfum sem ég vitnaði til áður sem er undir stjórn Gísla Gíslasonar og Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur, sem leiddu reyndar starfshópinn líka fyrir fjórum árum og gerðu það með miklum bravör, ég sé að sumir kinka kolli sem þekkja til þeirrar vinnu. Við búumst eiginlega við því og ætlumst til að það komi eitthvað út úr þeirri vinnu núna á vordögum sem við getum þá byrjað að grípa til. Við þurfum ekki að bíða eftir stefnunni og þingsályktuninni áður en við hreyfum okkur nokkurn skapaðan hlut. En það skiptir auðvitað máli að hafa heildstæða stefnu til að vinna eftir því að markmiðið er ekki bara það að ná fram stefnumótun á stuttum tíma og leysa skammtímavanda heldur er lykilatriðið að leysa húsnæðisvandann til langs tíma, búa til jafnvægi og þannig er það í raun og veru stór efnahagsaðgerð vegna þess, eins og hv. þingmaður kom inn á, og ég næ nú ekki að svara, að þegar verðbólgan rýkur upp þá hefur það vissulega áhrif á heimilin. Að taka tímabundið húsnæðisliðinn úr sambandi, er í mínum huga eitthvað sem hefði komið til greina ef hann færi út. (Forseti hringir.) En við skulum hins vegar líka að átta okkur á því að þá þarf einhvers konar (Forseti hringir.) mælingu og bankarnir eða fjármagnseigendur munu verðleggja lánin með einhverjum öðrum hætti og öðru viðmiði.