152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:35]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi jöfnunarsjóð, ef hv. þingmaður hefur áhuga á því að átta sig á stefnu ríkisstjórnarinnar: Þegar tekjur lækkuðu umtalsvert á Covid-tímanum þá vörðum við einmitt þær tekjur langt umfram það sem jöfnunarsjóðurinn átti rétt á í því skyni að tryggja tekjur sveitarfélaganna, ekki síst fyrir þá hópa sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda. Við komum með fleiri slíkar aðgerðir á félagslegum grunni til handa sveitarfélögunum. Núna þegar við horfum á fjármálaáætlunina og þá spá sem þar er þá sjáum við að tekjur jöfnunarsjóðs vaxa umtalsvert. Ef ég man rétt þá verða þær um 140 milljarðar á næstu fimm árum, sem er umtalsvert meira en á síðustu fimm árum. Þannig að ég held að það sé ekki hægt að segja annað en að ríkisvaldið og ríkisstjórnin standi nokkuð myndarlega við jöfnunarsjóðinn.

Af hverju Reykjavíkurborg ein fær ekki þessar jöfnunartekjur þá er það auðvitað þannig að þegar grunnskólinn fór yfir til sveitarfélaganna fyrir 25 árum var gerður samningur og þá var það stillt þannig af að útsvarið, sem fer til allra sveitarfélaga, og þar með höfuðborgarinnar, dygði fyrir þeim kostnaði sem þar var. Útsvarið hefur stigið margfalt síðan og þar af leiðandi einnig tekjur. Útreikningar okkar segja að þar hafi Reykjavíkurborg ekki borið skarðan hlut frá borði. Séu hins vegar einhverjar breytingar, eins og hv. þingmaður minntist á, mikill fjöldi erlendra íbúa þar sem börnin eru tvítyngd — ég held að það sé kallað á íslensku fyrir nýbúa, sem er nú ekki kannski fallegt orð en er, held ég, notað, þá hef ég sagt að það mætti alveg taka þann afmarkaða þátt og skoða hvort hægt sé að semja um hann. En við erum að breyta jöfnunarsjóðnum í enn meiri jöfnunarsjóð.

Nú missi ég af tækifærinu til að tala um vexti og framtíðaráform, því miður, því að það er eitt mesta uppáhaldsefnið. Við verðum að geyma þá umræðu þangað til síðar.