152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að svara þessari óundirbúnu fyrirspurn við þetta tilefni. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fylgja þessu máli eftir því að það er mjög sérstök staða ef 70 milljarðar þurrkast út af efnahagsreikningi borgarinnar yfir nótt, ef svo má segja. Verði niðurstaðan sú að reikningsskil hafi verið færð með röngum hætti hljóta að koma upp sjónarmið er snúa að eftirlitsnefnd sveitarfélaga og mögulegum áhrifum á jöfnunarsjóði. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að fylgja þessu máli eftir og veita því tilhlýðilega athygli.

Að því sögðu vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í það sem ég átti orðastað um við hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni fyrr í dag. Þar komu upp sjónarmið og vangaveltur er varða það hvort þörf sé á að gera breytingar á lögum um opinber fjármál til að auka sveigjanleika í framkvæmdaþáttum hins opinbera. Á það við um nýframkvæmdir eins og uppbyggingu hjúkrunarheimila og þar fram eftir götunum. Það sást glögglega í svari frá hæstv. ráðherra sem mér barst við fyrirspurn minni í fyrradag að útgjöld til nýframkvæmda eru því miður nokkuð hófleg ef við horfum yfir síðustu ár, samanborið við það sem var til að mynda á tímabilinu upp úr 2000–2003 til 2008–2009, eitthvað svoleiðis, og svo koma hrunárin. En engu að síður er nýframkvæmdatalan miklu lægri á núvirði en látið hefur verið í veðri vaka. Ég er ekki að segja að það hafi verið með neinum vilja til að flækja eða falsa framsetninguna heldur er auðvitað hluti af vandamálinu að menn komast ekki áfram með verkefnið. (Forseti hringir.) Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér í þeim efnum til að ná upp hinni opinberu fjárfestingu?