152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni orðin. Fyrst er því til að svara að í raun er lítil umræða um hvort þörf sé á fastri viðveru, eins og áður var, bandaríska hersins hér á landi eða annarra en við sjáum að umsvifin hafa að einhverju leyti aukist og viðveran er meiri frá vina- og bandalagsþjóðum. Í mínum huga er ljóst að við þurfum alla vega að fara gaumgæfilega í gegnum það hvort meira þurfi til. Ef óskað er heimildar til að fara í einhverja uppbyggingu, viðhaldsverkefni eða fjárfestingu sem talin er mikilvæg þá segi ég að það sé kalt hagsmunamat okkar að fara í gegnum hvort það skiptir máli, ekki þá bara gagnvart öryggi okkar borgara hér heldur líka aftur sem bandalagsríki í Atlantshafsbandalaginu. Í varnarmálalögunum eru öryggis- og varnarmál skilgreind sem mál sem snúa að samstarfi Íslands við önnur ríki og alþjóðastofnana á sviði landvarna sem og varna gegn öðrum hættum og ógnum sem steðja að íslensku þjóðinni og íslensku forráðasvæði og eiga upptök sín í alþjóðlegu samfélagi. Ég sem utanríkisráðherra fer með yfirstjórn varnarmála og framkvæmd varnarmálalaganna. Við höfum mjög mikilvægu hlutverki að gegna og því fylgir mikil ábyrgð, eins og því að gera hættumat á sviði varnarmála og mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi. Ég segi bara að þegar við sjáum að löndin öll eru að endurskoða sína stöðu, fara í gegnum allt sitt mat, langflest þeirra eru að auka mjög verulega í varnartengd verkefni, þá eigum við að taka sjálfstæða ákvörðun um það út frá okkar stöðu, bæði okkar hér gagnvart okkar borgurum en sömuleiðis okkar sem samstarfsríki og vina- og bandalagsþjóð. Ég er þeirrar skoðunar og tel að það muni leiða það af sér að það verði frekari umsvif og frekari fjárfestingar, bæði af okkar hálfu og vina- og bandalagsþjóða.