152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:09]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér í umræðum við okkur um þessa fjármálaáætlun. Mig langar að fjalla aðeins um málefnasviðið þróunarsamvinnu, en eins og fram hefur komið fyrr í kvöld hefur verið ákveðið að 0,35% af vergri landsframleiðslu fari til þróunarsamvinnu. Það er sannarlega ánægjulegt að sjá það hækkað upp í 0,35 þó svo að við hefðum kannski viljað sjá það hækka meira á tímabilinu í átt að 0,7% markmiðinu sem OECD hefur sett. Á þetta málefnasvið fellur hluti af kostnaði við móttöku flóttamanna og nú stöndum við frammi fyrir sennilega einum mestu mannúðaraðgerðum undanfarinna áratuga við það að taka á móti fólki að flýja stríðið í Úkraínu. Til að gefa okkur smá hugmynd um stærðir komu til Íslands í fyrra 872 hælisleitendur en á síðastliðnum rétt rúma mánuði síðan stríðið hófst hafa yfir 650 komið. Þessi bylgja af fólki leiðir til þess að þetta krefst stóraukins fjármagns til þessara liða, líklega bæði á þessu og næsta ári. Mín spurning til hæstv. ráðherra er: Mun þessi kostnaður leiða til niðurskurðar á annarri þróunarsamvinnu, svo sem tvíhliða og svæðisbundinni þróunarsamvinnu eða sér ráðherra fram á að sækja þurfi sérstakt fjármagn til að takast á við þetta einstaka og skelfilega ástand?