152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og segja það að ég a.m.k. mun berjast við hlið hennar til að tryggja það að þetta fjármagn fáist. Mig langar að fjalla aðeins um málaflokkinn utanríkismál vegna þess að það er hinn málaflokkurinn sem hæstv. ráðherra fer með. Í fjármálaáætluninni er talað um að græn framtíð og nýsköpun verði lögð til grundvallar starfi utanríkisþjónustunnar á komandi árum. Síðan er í áætluninni fjallað um það hvernig þetta felst m.a. í virkri þátttöku í alþjóðastofnunum sem vinna að grænni þróun og loftslagsmálum og mjög ánægjulegt að sjá einnig fjallað um fjármögnun loftslagstengdra verkefna í þróunarlöndunum. Það sem mér fannst kannski vanta er smáumfjöllun um það sem var svið hæstv. ráðherra á síðasta kjörtímabili, þ.e. nýsköpun. Ég hef fjallað um það í ræðustóli Alþingis að ég sjái stór tækifæri þegar kemur að grænni nýsköpun, þegar kemur að því að virkja þær skapandi greinar og það hugvit sem hér er og þekkingu í því að vinna að grænum lausnum og m.a. sé hægt að sækja jafnvel stórar fjárhæðir erlendis frá til að vinna að nýsköpun hér á landi tengdri grænni framtíð og loftslagsmálum. Mig langar þar af leiðandi, frú forseti, að spyrja hæstv. ráðherra hvernig ráðherra sér fyrir sér að utanríkisráðuneytið muni beita sér fyrir grænni nýsköpun á komandi árum.