152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þar sem ég veit að það á eftir að vinna nýja þróunarsamvinnuáætlun fyrir Ísland vona ég að hæstv. ráðherra fylgi þeim þáttum eftir sem hún hefur verið að tala um. Líkt og ég sagði hér áðan þá erum við að gera alveg rosalega vel það sem við erum að gera í þróunarsamvinnunni og við höfum haft gríðarlega mikilvægan fókus á réttindi kvenna. Ég held að besta leiðin til þess að tryggja kynja- og jafnréttissjónarmið sé í rauninni að tryggja frið í heiminum. Það er mikilvægt að ræða þau mál, ekki síst þegar átök geisa, vegna þess að við vitum hversu mikilvægt það er að binda enda á átök og stuðla að því að friðsamlegar lausnir náist fram sem hraðast.

Hér í fjármálaáætluninni er aðeins tæpt á máli sem ég held að sé mjög mikilvægt og við þurfum að ræða meira um, það eru alþjóðlegar skuldbindingar á sviði afvopnunarmála og vígbúnaðartakmarkana. Það hefur auðvitað verið hræðilegt að hlusta á það að Rússar hafa talað um beitingu kjarnorkuvopna. Það er náttúrlega algjörlega ótækt. Það eru allt of mörg ríki sem eiga kjarnorkuvopn og því miður hefur á alþjóðavísu verið grafið undan afvopnunarsáttmálum. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hún muni ekki örugglega beita sér fyrir því að vinna að þessu máli sem einmitt er aðeins komið inn á í áætluninni.