152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:29]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Innrás Rússa í Úkraínu er umfangsmesta hernaðaríhlutun í Evrópuríki síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Við þekkjum þetta auðvitað öll. Það geta engin orð lýst hörmungum sem Úkraínubúar ganga í gegnum og okkur ber siðferðisleg skylda til að styðja þá með ráðum og dáð en við þurfum líka að huga að okkar eigin öryggi. Hvar stendur sjálfstæð fámenn þjóð ef Rússar komast upp með að breyta leikreglum á alþjóðasviðinu? Allir okkar hagsmunir eru undir því komnir að aðrar þjóðir, stærri og umsvifameiri, fylgi þeim reglum sem settar hafa verið í samskiptum þjóða. Þess vegna lögðum við í Viðreisn til að framlög til Alþjóðlega sakamáladómstólsins yrðu hækkuð til að gera honum betur kleift að standa straum af kostnaði við rannsóknir á stríðsglæpum Rússa. Það er mjög mikilvægt, að okkur finnst, að sú tillaga hljóti brautargengi hjá meiri hluta þingsins. Það er ákveðið áhyggjuefni að samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs lækkuðu töluvert á tímabili áætlunarinnar. Undir þann flokk fellur stuðningur við sakamáladómstólinn en í fjármálaáætlun er ekki sundurgreint frekar hvar niðurskurðurinn fari fram.

Þess vegna langar mig að spyrja hvaða breytinga við megum vænta á framlögum Íslands til Alþjóðlega sakamáladómstólsins á þessu ári og á gildistíma fjármálaáætlunar. Og svo: Framlög til varnarmála eru líka hækkuð nokkuð á tímabilinu sem er mikilvægt í þessu ástandi sem við búum núna við, öll heimsbyggðin. Aftur á móti koma líka nokkrir liðir til lækkunar. Í kynningu utanríkisráðuneytisins á áætluninni kemur fram 100 millj. kr. hækkun á framlögum til varnarmála árið 2024 en 16 millj. kr. lækkun á samningsbundnum framlögum til varnarmála. Önnur þessara fjárhæða hljómar mjög almenn og hin mjög sértæk, bæði með tilliti til fjárhæða og útgjaldaflokka. Þess vegna vildi ég gjarnan óska eftir frekari skýringum frá hæstv. utanríkisráðherra á þessum liðum.