152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:53]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir sína stuttu yfirferð hér. Nú er ég að reyna að átta mig á útgjaldarammanum í fjármálaáætluninni og mér sýnist að ramminn minnki eða lækki um 400 millj. kr. að raunvirði á næstu fimm árum. Það er alveg ljóst að við þurfum að fjárfesta af fullum krafti í öllu er varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, orkuskiptum sem hæstv. ráðherra verður tíðrætt um og öllu því er stuðlar að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og kemur í veg fyrir hamfarahlýnun þannig að við förum ekki yfir 1,5°C á þessari öld. En er það rétt skilið hjá mér, frú forseti, að hér sé um lækkun á raunvirði að ræða? Það má vera að hér sé einhver tilflutningur framlaga en ég hefði haldið að einmitt í þessari fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem á að gilda frá 2023–2027, ætti að vera gríðarleg aukning á málefnasviði hæstv. ráðherra svo að markmiðum okkar í loftslagsmálum verði örugglega náð og einnig önnur þau mál er heyra undir ráðherrann, umhverfis- og náttúruvernd. Ég vona að hæstv. ráðherra geti svarað þessu en ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að átta mig á þessari stöðu í köflunum er varða ráðuneyti hans í áætluninni.