152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:00]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Aukin framlög til loftslagsmála í þessari fjármálaáætlun, m.a. vegna bindingar og samdráttar gróðurhúsalofttegunda, nema uppsafnað um 1,6 milljörðum kr. á tímabilinu á málefnasviði 15–17. Síðan er ýmislegt annað á málefnasviðinu. Þar erum við bara að tala um loftslagsmálin. En mér fannst hv. þingmaður hitta naglann á höfuðið þegar hún vísaði í að þetta snýr að öllum þáttum þjóðlífsins. Hv. þingmaður vísaði til nýsköpunar. Hv. þingmaður vísaði til orkumála. Hv. þingmaður vísaði til samgöngumála. Hv. þingmaður hefði getað haldið áfram með byggingar. Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum þegar ég sá að nýbyggingin okkar alþingismanna hér væri ekki alveg hugsuð út frá þeim forsendum. En ég tek bara eitt dæmi. Þessi fjármálaáætlun sem snýr að þessu málefnasviði verður aldrei tæmandi. Við vitum alveg að stóra verkefnið er orkuskiptin. Auðvitað er það miklu minna verkefni en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Við erum búin með 85% en 15% eru samt stór og það er ekki hægt að gera því tæmandi skil. Ég held að það sé ekki góð hugmynd að neinn sé þar en ef einhver þyrfti að vera þar þá þyrfti ég væntanlega að taka yfir öll málefnasvið ríkisstjórnarinnar og ég held að það yrði nokkuð umdeilt. En þetta á við um öll málefnasvið. Þetta snýr að viðhorfsbreytingu. Þetta er þjóðarátak og við verðum að hafa það í huga þegar við erum að ræða þessi mál. Það er bara það, virðulegi forseti, sem ég er að draga athyglina að.