152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:27]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Frú forseti. Það kemur væntanlega hvorki hv. þingmönnum né hæstv. ráðherra á óvart að mig langar að forvitnast örlítið um áform um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Í stjórnarsáttmála segir að unnið verði að stofnun þjóðgarðs á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á miðhálendinu. Þegar friðlýst svæði á miðhálendinu eru þó nokkur og þeirra stærst mun vera Vatnajökulsþjóðgarður sem þekur jú alla jökulhettuna. Ætli það séu ekki um 14% landsins sem þar eru undir.

Mig langaði að forvitnast í samhengi þeirrar fjármálaáætlunar sem við ræðum hér. Þetta er aðeins annað markmið en var í tíð fyrri ríkisstjórnar þar sem lögð var heilmikil vinna í það verkefni að ræða stofnun miðhálendisþjóðgarðs eða þjóðgarðs á hálendi Íslands sem sannarlega þurfti mikla og fékk mikla umræðu, mjög nauðsynlega umræðu, en hún kláraðist ekki alveg og ljóst að það þarf að gera það í frekara samtali og samráði. Það sem hangir sannarlega með friðlýstum svæðum og uppbyggingu þeirra er uppbygging innviða, svo sem gestastofa, göngustíga, salerna og allt þetta sem tengist þessum verkefnum. Vissulega má ætla að á mörgum þessara þegar friðlýstu svæða sé staðan ansi góð eins og hún er í dag. En eitthvað hlýtur að þurfa til viðbótar og mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort og hvernig gert sé ráð fyrir því í þessari áætlun að uppbyggingarþörf fylgjandi stofnun þjóðgarðs á hálendinu verði mætt, hvort það sé með sérstökum fjárveitingum til einstakra gestastofa eða með því mjög svo ágæta tæki, landsáætlun um uppbyggingu innviða.