152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:37]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Eitt er það sem hægri menn aðhyllast öðru fremur og það er að rétt verð sé greitt fyrir gæði, hvers konar verðmæti og jafnvel tjón líka. Sú umræða hefur verið hávær að þjóðhagslega tjónið sem stafar af losun mengandi lofttegunda og efna hafi ekki verið metið að fullu. Í fyrsta lagi veldur mengandi losun skaða á náttúrulegum vistkerfum sem erfitt er að meta til fjár en getur haft áhrif langt inn í framtíðina eins og við þekkjum. Í öðru lagi bíður fólk heilsufarslegt tjón af loftslagsbreytingum. Í þriðja lagi valda loftslagsbreytingar á heimsvísu uppskerubresti og skorti sem getur svo haft bein áhrif á matvælaverð hér á landi. Í fjórða lagi ber íslenska ríkið fjárhagslegar skuldbindingar á grundvelli alþjóðasamninga um loftslagsmál þegar ríkisstjórnin nær ekki markmiðum sínum. Í þessari fjármálaáætlun eru t.d. 800 millj. kr. eyrnamerktar vegna Kyoto-bókunarinnar og svona má lengi telja. Krafan er sú að fjárhagslegur kostnaður samfélagsins af mengun sé metinn með þessum hætti og gjald lagt í samræmi við það. Á meðan það er ekki gert er til staðar markaðsskekkja sem gerir hlutfallslega arðbærara að menga en að gera það ekki. Þetta er kallað mengunarbótareglan og þeir sem menga borga. Tekjum hins opinbera af slíkri gjaldlagningu er síðan hægt að verja í stuðning við græna nýsköpun eða til almennrar skattalækkunar. Þannig yrði hægt að skapa tvöfaldan hvata til að draga úr losun og stuðla að því að við náum loftslagsmarkmiðum okkar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi sett sig inn í þessa umræðu og hver afstaða hans sé til þess að losun mengandi lofttegunda og efna verði gjaldlögð í samræmi við kostnað samfélagsins af henni.