152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:43]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir hans innlegg og spurningar. Bara varðandi einstaka þætti, varðandi krónur og aura, þá kæmi það verulega á óvart ef við sæjum ekki breytingar á þessum málaflokki í tíð þessarar fjármálaáætlunar. Menn gera auðvitað áætlanir miðað við þær bestu forsendur sem þeir hafa en það er bara svo augljóst að þær áætlanir sem við leggjum upp með núna munu taka breytingum. Ég verð því bara að segja eins og er að ég er frekar rólegur þegar kemur að því. Menn nefna að einhverjar tölur séu kannski ekki alveg nákvæmar. Já, alveg pottþétt. Við erum bara að gera þetta sem ég segi að sé mjög skynsamlegt, ég segi að það sé skynsamlegt að leggja í áætlun og reyna að gera hana eins vel eins og mögulegt er. En þetta mun taka breytingum í þessum málaflokki, örugglega í öllum en alveg sérstaklega í þessum.

Þegar hv. þingmaður vísar til orkuskipta og þess að loka einstökum verksmiðjum þá er grunnhugmyndafræðin sú þegar kemur að loftslagsmálum að við erum ekki að ýta vandanum annað. Ef allir myndu hugsa þannig þá næst enginn árangur í baráttunni við loftslagsvána. Ef allir myndu bara hugsa: Það sem snýr að mengun hjá okkur, við ætlum bara að taka það og færa það eitthvað annað. Hvert á það að fara? Það ætti væntanlega að fara í eitthvað annað stjörnukerfi ef við ætluðum að ná árangri í loftslagsmálum. Hjá öllum þjóðum sem við berum okkur saman við er hugmyndafræðin að við séum að taka á því sem er hjá okkur. Það er alveg sama hvað það er, það sem hv. þingmaður nefndi eða eitthvað annað. Fyrir utan allra handa aðra þætti, ef við ætlum að loka einhverri atvinnustarfsemi, sama hver hún væri, sem einhverjir væru búnir að fjárfesta í í góðri trú, og atvinnu og atvinnusköpun og annað slíkt, það hefði náttúrlega allra handa afleiðingar í för með sér.

Aðalatriðið er þetta: Við þurfum að taka á því sem er hjá okkur. Það liggur alveg fyrir. Þetta er ekkert frekar en að við gætum tekið á glæpum á Íslandi þannig, ef einhverjir væru, (Forseti hringir.) að við myndum bara taka glæpamenn og flytja þá til annarra landa og segja: Við höfum náð gríðarlegum árangri í að ná niður glæpum á Íslandi. (Forseti hringir.) Þó að þetta sé alls ekki sambærilegt, svo að það sé alveg sagt. Hins vegar er hugsunin sú að við verðum að taka á loftslagsvánni með (Forseti hringir.) öðrum þjóðum í heiminum.