152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:41]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tók alla vega tvennt með mér eftir seinni ræðu hv. þm. Sigmars Guðmundssonar. Annars vegar það hvort við könnumst við ábyrgð okkar á málaflokkum og ég skorast ekki undan því. Ég er sannfærður um að hluti af þeirri vinnu sem hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason náði að setja í gang á síðasta kjörtímabili kemur til vegna þess að við höfum verið með þennan málaflokk til umfjöllunar nokkuð lengi. Það er rétt að hann lagði áherslu á að lengja fæðingarorlofið sem hluta af því að bæta aðstæður barna, ekki síst þess hóps sem áður var kannski hvað óöruggastur, þ.e. níu mánaða börn til 12, 13 mánaða. Ég held að það að við höfum lengi haft þennan málaflokk á einhvern hátt hjá okkur geri það að verkum að menn leggja af stað í stærri lausnir, stærri hugsanir — ekki vera að hugsa um fjögur ár heldur kannski heilu áratugina eins og þetta farsældarfrumvarp barna ber með sér. Það er auðvitað gott fyrir málaflokkinn að það sé sami einstaklingur sem brennur fyrir þessu máli sem fái tækifæri til að innleiða lögin sem samþykkt voru á síðasta þingi.

Varðandi leikskólagjöldin þá er ég orðinn of gamall, ég er alla vega ekki með það í kollinum hvað leikskólapláss kostar í krónum. En það er þannig í dag að foreldrar borga um 10% af kostnaðinum. Fyrir 10–15 árum innheimtu sveitarfélögin um 30–35% af þeim kostnaði. Hver 10% eru sirka 5 milljarðar þannig að í dag eru sveitarfélögin að fá um 5–6 milljarða í heildartekjur af leikskólagjöldum. Ef þau væru enn með 30– 35% væru þau með 15–18 milljarða tekjur sem væri þá 10–12 milljörðum betri staða á hverju ári hjá sveitarfélögunum en ella. (Forseti hringir.) En þau tóku þessa ákvörðun og eiga svo sem minnstu ákvörðunina eftir, sem eru þá síðustu 10%. En ég er sammála hv. þingmanni, það verður mjög þungt hjá sveitarfélögunum að fara í það án þess að horfa heildstætt á það hvernig við ætlum að þjónusta yngstu börnin.